152. löggjafarþing — 28. fundur,  27. jan. 2022.

skattar og gjöld.

211. mál
[15:26]
Horfa

Guðrún Hafsteinsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að ég og hv. þm. Andrés séum sammála um að það var mikil tímapressa þegar við vorum að vinna með frumvarp um frestun opinberra gjalda. Það var mikið í húfi og þegar mikið er í húfi þá þarf maður stundum grípa til óhefðbundinna aðferða. Það er kannski það sem við getum tekið út úr þeirri meðferð, að það er óvenjulegt að afgreiða frumvarp hér á einum degi.

Varðandi húsbíla þá hefði þessi undanþága runnið út sjálfkrafa nú um áramótin og það hefði orðið þess valdandi að ekki hefði verið hægt að endurnýja húsbílaflota hjá mörgum bílaleigum vegna kostnaðar. Ég vil líka minna á það, af því að þingmaðurinn kallar eftir rýni, að hefði það orðið niðurstaðan þá hefði ríkissjóður hugsanlega orðið af tekjum af innflutningi þessara bíla. Ég get því miður ekki svarað fyrir gjörðir bílaframleiðenda sem svindluðu á mengunarbúnaði bifreiða sem þeir seldu. Eins og kom fram í máli mínu í síðustu viku þá erum við í orkuskiptum og þessi ríkisstjórn ætlar að standa sig vel hvað það varðar. Ég vil minna á að í meðförum nefndarinnar og í frumvarpi sem kom frá ráðherra þá var t.d. (Forseti hringir.) lækkuð verulega ívilnun til tengiltvinnbíla. Það var einmitt sú hugsun til að ýta enn frekar undir það að landsmenn færu í hrein orkuskipti, og þá er ég að tala um rafmagnsbíla.