152. löggjafarþing — 28. fundur,  27. jan. 2022.

afnám 70 ára aldurstakmörkunar í lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

160. mál
[17:26]
Horfa

Flm. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég er alveg sammála því að öll þurfum við að hafa hlutverk þegar við vöknum á morgnana, til þess einmitt að andleg líðan sé betri. Og þörf okkar alla jafna fyrir að vera í umhverfi þar sem er fólk, eiga félagsleg samskipti og félagsleg tengsl, er gríðarlega mikilvæg. Af því að hér er nefndur aldur á fólki sem þurfti að hætta að vinna sökum aldurs en fór svo að gera eitthvað annað til að halda sér hreinlega á floti andlega kannski og auðvitað í líkamlegu formi þá skiptir þetta allt máli. Ætli við höfum ekki einmitt verið með jafnaldra hv. þingmanns, eða kannski árinu eldri, í þingflokki okkar á síðasta kjörtímabili. Það er líka hér inni eins og annars staðar í samfélaginu, þingið og aðrir vinnustaðir eiga auðvitað að endurspegla samfélagið eins og það er, á vinnustöðum og annars staðar. Það skiptir máli að mínu mati að hafi fólk hug á því að halda áfram vinnu — eins og ég sagði í tillögunni þá er enginn að hvetja til þess að fólk haldi áfram en að það hafi alla vega tækifæri til þess. Það er auðvitað fyrst og fremst það sem skiptir máli í þessu. Ég get því alveg tekið undir að það er eiginlega algjör fásinna að miða við einhvern aldur þegar maður er á vinnumarkaði. Það á alltaf að vera færnin og hæfnin til þess starfs sem maður vill sinna. En sannarlega getur það verið þannig að með tíð og tíma hægi á manni og maður sé ekki jafn afkastamikill eðli máls samkvæmt. Og kannski einmitt líka þá þyrfti þetta sveigjanlega að vera til staðar.