152. löggjafarþing — 28. fundur,  27. jan. 2022.

afnám 70 ára aldurstakmörkunar í lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

160. mál
[17:29]
Horfa

Flm. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti,. Það er alveg rétt að leiðir fólks eru misjafnar þegar það hefur ekki hlutverk í lífinu og þetta er kannski einmitt partur af því, eins og hv. þingmaður minntist á, að við þurfum að horfa til breyttra aðstæðna og þess hvernig við lifum í dag. Við lifum miklu lengur og erum hraustari sem betur fer. Eðli máls samkvæmt var aðbúnaður fólks hér á árum áður allur annar en hann er í dag og fólk stritaði kannski mun meira og lifði styttra, var orðið lúnara miklu fyrr en það er í dag. En fyrst og fremst er það auðvitað þetta: Við höfum einhverju hlutverki að gegna og finnum til þess í lífinu, hvort sem það er að passa barnabörn eða bara að hafa eitthvert hlutverk í lífinu eftir að við kjósum að hætta að vinna. Það ætti í rauninni kannski að vera útgangspunkturinn, að við veljum það að hætta að vinna frekar en að okkur séu settar skorður í því.

Ég segi það bara fyrir mig að ég myndi vilja geta ráðið því sjálf en ekki hreinlega fá uppsagnarbréfið daginn áður en ég verð sjötug, heldur að ég geti unnið, langi mig til þess, hvar sem ég vil, ekki endilega bara hjá hinu opinbera heldur alls staðar. En auðvitað er þetta bundið í lögum um opinbera starfsmenn sérstaklega. Og það er líka dálítið skrýtin skrúfa að þeir skuli vera í einhverju öðru hólfi en hinir. Það er það sem við viljum í raun bara leiðrétta, þann mismun sem á sér stað með þeim lögum.