Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 28. fundur,  9. nóv. 2022.

Störf þingsins.

[15:06]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Hvernig væri að ríkisstjórnin myndi nú um næstu mánaðamót borga út 13. mánuðinn skatta- og skerðingarlaust til allra þeirra sem verst hafa það í almannatryggingakerfinu? Hvernig myndi okkur hérna inni líða með það að vera með 3.500 kr. í mínus á mánuði eftir að hafa greitt öll föst útgjöld heimilisins í síðasta mánuði, stíga síðan þau ömurlegu, erfiðu en nauðsynlegu skref að standa í biðröð eftir mat og einnig senda inn umsókn um fjárhagsaðstoð? Verðbólgan er í hæstu hæðum, jólin fram undan og aldrei hafa fleiri sótt um aðstoð til umboðsmanns skuldara síðan í Covid-faraldrinum. Ráðstöfunartekjur þeirra sem verst hafa það í okkar ríka samfélagi eru langt undir fátæktarmörkum og dragast saman ár eftir ár þannig að sárafátækasta fólkið okkar nær engan veginn endum saman. Best setta fólkið okkar finnur fyrir verðhækkunum á matvöru, húsnæði, leigukostnaði og öðrum nauðsynjum vegna vaxtahækkana svo um munar og er í áfalli vegna þess.

Nálægt 100 manns sóttu um aðstoð vegna fjárhagsvanda til umboðsmanns skuldara í október, sem er 20% aukning að meðaltali frá árinu áður og ástæðan er hækkun á húsnæði, mat, fötum og öðrum framfærslukostnaði. Stærsti hópur þeirra sem leitar til umboðsmanns skuldara eru öryrkjar, eða rúm 40%, og umsóknum þeirra fer fjölgandi. Þá eru 35% þeirra sem leita aðstoðar vinnandi fólk og atvinnulausir eru 20%. Að framansögðu, er ekki kominn tími til að borga út 13. mánuðinn skatta- og skerðingarlaust um næstu mánaðamót til aldraðs fólks og öryrkja í almannatryggingakerfinu þar sem lægsta greiðslan er um 200.000 kr. á mánuði eftir skatt, sem er engin ofrausn? Setjum þetta í samhengi við jólabónus okkar hér á Alþingi og nauðsyn okkar á honum. Er ekki frekar nauðsynlegt að borga þeim verst settu 220.000 kr. skatta- og skerðingarlaust um næstu mánaðamót?