Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 28. fundur,  9. nóv. 2022.

Störf þingsins.

[15:10]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Herra forseti. Við höfum öll réttindi til að hafa ólíkar skoðanir en það þýðir ekki að allar skoðanir séu réttar. Sú skoðun að jörðin sé flöt er röng. Hver sem er hefur rétt til að hafa og tjá þá skoðun en hún er samt röng. Hverjar eru líkurnar á því að hún sé rétt? Engar. Þetta er ekki rétttrúnaður, virðulegi forseti, heldur eina ályktunin sem mögulegt er að draga út frá staðreyndunum sem blasa við um efnið. Þegar fólk hafnar þessum staðreyndum má með réttu kalla það ólík viðhorf, sem áskorun við ríkjandi sannleika, sem baráttu gegn meintum rétttrúnaði, en jafnvel þá er það staðreyndavilla. Stundum er það nefnilega þannig að staðreyndirnar liggja fyrir, málið er margrannsakað og fyrir löngu búið að fara í saumana á því sem um er rætt hverju sinni.

Í stjórnmálum er þó of algengt að staðreyndavillur séu settar fram sem ólík sjónarmið. Eðlilega hefur stjórnmálafólk og kjósendur ólíkar skoðanir á öllu milli himins og jarðar. Tilveran væri ekki nándar nærri jafn skemmtileg ef við værum öll eins eða öll með sömu skoðanirnar. En rétturinn til að hafa og tjá ólík sjónarmið þýðir ekki að staðreyndir, rökfræði og aðgengilegar upplýsingar hætti að skipta máli. Jörðin verður áfram hnöttótt, hvort sem fólki er heimilt að segja hana flata eða ekki. Berum virðingu fyrir muninum á því sem er satt og ósatt, rétt og rangt, rökrétt og órökrétt. Heiðarleiki í stjórnmálum er fullkomlega háður því að kjósendur komi því til skila með atkvæði sínu að þeir meti hið sanna umfram hið ósanna.