Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 28. fundur,  9. nóv. 2022.

Störf þingsins.

[15:15]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Nú stendur yfir heimsþing kvenleiðtoga í Reykjavík. Þetta er í fimmta sinn sem þetta þing er haldið hér á landi, nú undir yfirskriftinni „Power, Together for Partnership“, sem vísar til mikilvægis samstarfs og samstöðu um jafnréttismál. Á þinginu er fjöldi kvenleiðtoga víðs vegar að úr heiminum og þátttakendur á bilinu 500–600 konur. Sumar eru á fjarfundi en aðrar eru hérna á hafnarbakkanum. Þar á meðal eru ríflega 100 þingkonur og sendinefndir frá 22 þjóðþingum, sömuleiðis leiðtogar á öllum sviðum atvinnulífs, vísinda, fjölmiðla og viðskipta, svo fátt eitt sé nefnt.

Það er gríðarlega mikilvægt að auka sýnileika kvenna í valdastöðum. Í því felst valdefling fyrir komandi kynslóðir kvenna að horfa til eigin framtíðar og vita að þær standi jafnfætis bræðrum sínum, að kyn þeirra sé ekki hindrun heldur tækifæri. Hér á landi er það að verða kunnuglegra að konur gegni slíkum stöðum en við stöndum t.d. frammi fyrir því að í stjórnum er skiptingin verulega ójöfn. Hér á þinginu er hins vegar næstum helmingur þingmanna konur. Eftir sveitarstjórnarkosningarnar var hlutfall kjörinna kvenna í sveitarstjórnum það hæsta til þessa eða 47%. Það er árangur sem við höfum barist fyrir og þurfum að halda áfram að berjast fyrir því að jafnrétti er auðvitað ekki náð. Þrátt fyrir að fullnaðarsigri hafi ekki endilega verið náð getur góður árangur okkar í jafnréttismálum verið innblástur annars staðar í heiminum þar sem þess er þörf. Þetta þing sem nú er haldið í Hörpunni er liður í því að kynna m.a. árangur okkar og skiptast á skoðunum. Það er í mínum huga bæði heiður og ábyrgð sem við þurfum að axla gagnvart jafnréttinu á heimsvísu.

Virðulegi forseti. Ég þakka öllum þeim sem standa að þessu mikilvæga þingi og ég vona svo sannarlega að það haldi áfram að vaxa og dafna sem og jöfn réttindi og staða alls fólks óháð kyni.