Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 28. fundur,  9. nóv. 2022.

Geðheilbrigðisþjónusta.

[15:53]
Horfa

Guðrún Hafsteinsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Í mars á þessu ári kynnti Ríkisendurskoðun stjórnsýsluúttekt sína varðandi stefnu, skipulag, kostnað og árangur í geðheilbrigðisþjónustu. Í skýrslunni er varpað ljósi á stöðuna eins og hún er og margt þar sem vert er að vekja athygli á. Fyrst ber að nefna þann mikla biðtíma eftir geðheilbrigðisþjónustu hvort sem er fyrir börn eða fullorðna. Á Geðheilsumiðstöð barna er meðalbiðtími 12–14 mánuðir og eru í dag 830 börn að bíða eftir þjónustu — 830. Það er 22–24 mánaða bið eftir einhverfugreiningu barna, tæplega 8 mánaða bið eftir þjónustu á BUGL og 16 mánaða bið hjá Ráðgjafar- og greiningarstöð. Hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins er biðtími barna um 17 mánuðir og þar bíða um 110 börn eftir þjónustu. Jafnt aðgengi að heilbrigðisþjónustu er mjög mikilvægt og raunar eitt af markmiðum heilbrigðisstefnu. Á síðasta kjörtímabili var heilbrigðisþjónusta á Suðurlandi efld og mikilvægt að haldið verði áfram á þeirri braut á kjörtímabilinu. Sérstakt fjármagn kom til Heilbrigðisstofnunar Suðurlands sem var nýtt til að stofna geðheilbrigðisteymi. Starfsemi teymisins er löngu sprungin og stendur mannekla starfseminni fyrir þrifum. Nú er draumur okkar Sunnlendinga að hægt verði að stofna sambærileg teymi fyrir börn og ungmenni, enda þjónusta geðheilbrigðisteymin nú aðeins fólk yfir 18 ára aldri eins og áður sagði. Þörfin fyrir geðheilbrigðisþjónustu barna er knýjandi. Biðtími barna ætti að vera í algerum forgangi hjá hæstv. heilbrigðisráðherra, enda er hver mánuður langur tími í lífi barns sem er í vanda.