Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 28. fundur,  9. nóv. 2022.

Geðheilbrigðisþjónusta.

[15:58]
Horfa

Jódís Skúladóttir (Vg):

Frú forseti. Ég fagna þessari umræðu. Geðrænn vandi er gríðarlega flókið viðfangsefni. Málefnið er oft og tíðum hulið og umræðan lituð af skömm. Viðfangsefnin eru mörg og ólík. Fólk á öllum aldri, af öllum kynjum, úr öllum stéttum og um allt land glímir við geðraskanir. Aðgengi að þjónustu verður að vera tryggt og leggja verður áherslu á að styðja við þau úrræði sem fyrir eru en einnig að bjóða upp á fleiri. Það er einn vinkill sem mig langar að koma inn á í þessu samhengi en það er afar jaðarsettur hópur fólks sem glímir við fjölþættan vanda, þ.e. geðraskanir og fíknivanda. Þessi hópur mæti jafnan fordómum og skilningsleysi, jafnvel innan heilbrigðiskerfisins, og úrræðin eru of fá og ófullnægjandi. Rannsóknir hafa sýnt að allt að 70% fólks með áfengissýki og allt að 90% fólks í blandaðri neyslu eru með tvígreiningu, þ.e. eru einnig að glíma við geðraskanir. Algengt er að fólk með fíknivanda leiti svo í áfengi og vímuefni til að deyfa slæma líðan vegna geðsjúkdóma en til langs tíma getur það valdið verri líðan þar sem vímuefni geta ýtt undir kvíða, depurð og önnur einkenni geðraskana. Þetta er flókinn vandi og ekki ein einföld lausn sem dugar til að leysa vanda geðheilbrigðisþjónustunnar. Verkefnin eru mörg og ólík en við verðum einfaldlega að gera betur og sinna öllum þeim sem svo sárlega þurfa á aðstoð að halda. Það er mikilvægt að við stöndum saman um að gera betur.