Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 28. fundur,  9. nóv. 2022.

Geðheilbrigðisþjónusta.

[16:00]
Horfa

Elín Anna Gísladóttir (V):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Ingu Sæland fyrir þessa mikilvægu umræðu. Ég hef áður komið inn á það í þessum ræðustól hversu mikilvægt það er að andleg heilsa fólks standi jafnfætis líkamlegri heilsu og það myndi borga sig margfalt að taka á þessum málum af festu. Ástæðan fyrir því að ég ræddi fjárhagshliðina síðast þegar var hér var sú að ég kom inn í miðjum umræðum um fjárlög og sá að það væri enn þá ekki verið að gera ráð fyrir fjármunum til að niðurgreiða sálfræðiþjónustu sem Alþingi hefur þó þegar samþykkt að sé heimilt. Vangeta stjórnvalda til að takast á við þessi mál virðist alger. Því við þekkjum vandamálið. Við höfum samþykkt aðgerðir til að vinna á vandanum en samt stöndum við hér í sérstökum umræðum og ræðum við ráðherra vaxandi vanda, slæma þjónustu, skort á fjármagni og skort á raunverulegum aðgerðum. Og vandinn bara vex. Að vera foreldri sem getur ekkert gert nema beðið og vonað að barnið manns komist loksins að er óbærileg tilfinning. Börnin sem bíða glíma flest við vandamál sem þyrfti að grípa inn í strax en þau eru látin bíða svo mánuðum og árum skiptir á biðlistum. Má ég benda hæstv. ráðherra á að þannig tæklar maður ekki vandamál. Ef við lítum undan og vonumst eftir því að vandamálin hverfi, þá munu þau stækka og flækjast með tímanum. Andleg veikindi fólks eru ekki einungis vandamál þeirra sem veikjast. Þessi veikindi hafa áhrif á alla aðstandendur þessara sjúklinga, að ég tali nú ekki um þegar börn eiga í hlut. Þetta er álag sem liggur á þúsundum manneskja úti í samfélaginu okkar, álag á skólakerfið okkar, heilsugæsluna og allt samfélagið.