Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 28. fundur,  9. nóv. 2022.

Geðheilbrigðisþjónusta.

[16:14]
Horfa

Jódís Skúladóttir (Vg):

Frú forseti. Þetta hefur verið mikilvæg og góð umræða og ég þakka málshefjanda fyrir að koma þessu á dagskrá og hæstv. ráðherra fyrir að bregðast við. Mig langar að nota þessar seinni mínútur mínar til að vísa til annars sérstaks hóps. Ég er mjög meðvituð um það, eins og ég kom inn á í fyrri ræðu minni, að vandinn fer þvert á stéttir, þvert á kyn, þvert á aldur, þvert á búsetu. Mig langar að taka einn hóp út úr því að þetta hef ég heyrt í auknum mæli undanfarið og mig langar að nefna bændastéttina. Það er gríðarlegt álag á bændum. Það er t.d. mjög algengt að sauðfjárbændur þurfi að vinna fulla vinnu utan heimilis og eiga svo eftir fulla vinnu þegar þeir koma heim. Við sjáum í alvarlegum málum er varða dýrahald, aukningu í barnaverndarmálum og öðru að þarna er gríðarlegt álag og fólk er að missa tökin og lenda í alvarlegum vanda sem hefur snjóboltaáhrif á líf fjölskyldu, vina og samfélagsins alls. Þetta er hópur þar sem ég held að geðrænn vandi sé mjög falinn. Mig langaði bara að nefna þetta sérstaklega af því að ég held að þarna séu stórar og miklar áskoranir sem hafa afleiðingar, eins og ég segi, út í samfélagið, á dýravelferð, á barnavernd. Þetta er hópur sem við þurfum að veita sérstaka athygli.