Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 28. fundur,  9. nóv. 2022.

rannsókn á vinnuhælinu á Kleppjárnsreykjum o.fl.

30. mál
[16:49]
Horfa

Flm. (Gísli Rafn Ólafsson) (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið og spurningarnar. Í fyrsta lagi varðandi kynþáttahyggjuna þá kemur hún mjög vel fram í heimildamyndinni Stúlkurnar á Kleppjárnsreykjum, sem ég nefndi meðal annars. Þar eru sýndar greinar úr dagblöðum þess tíma og yfirlýsingar ráðamanna og þar er sagt hreint út að þetta sé til verndar hinum íslenska kynstofni. Varðandi það hversu margar konur séu enn á lífi þá er það ekki alveg á hreinu hvort einhverjar séu enn á lífi, því miður. Það tengist því að það er leynd yfir sumum af þessum gögnum þannig að það hefur ekki komið fram opinberlega. Ég þarf svo að reyna að muna þriðju spurningu þingmannsins (EÁ: Hún var um það hversu miklum hluta gagnanna búið væri að aflétta leynd af.) — Það á eftir að aflétta leynd af hluta af gögnunum. Eins og stendur í greinargerðinni þá var þessum gögnum komið á Þjóðskjalasafnið eftir lát Jóhönnu. Það eru mjög ströng skilyrði um það hvernig fá má aðgang að þeim gögnum. Þau gögn sem eru þar eru að hluta til ekki opinber og ekki aðgengileg almenningi eða okkur hér á þinginu eða neinum öðrum.