Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 28. fundur,  9. nóv. 2022.

heimild til rannsókna og notkunar á efninu sílósíbíni í geðlækningaskyni.

163. mál
[17:25]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka framsögumanni þessa máls fyrir framsöguna. Ég er ekki meðflutningsmaður á því en ég hélt ég hefði tilkynnt að ég ætlaði að vera meðflutningsmaður. Ég verð að viðurkenna, eins og kemur fram í greinargerð eru fordómar gagnvart notkun efnisins, að kannski hef ég verið með slíka fordóma, ég veit það ekki, en ég hélt ég hefði orðið meðflutningsmaður. Ég vil taka fram að ég styð þetta mál. Það var talað um að hugsa út fyrir boxið. Ég las einmitt grein í Economist sem heitir „Thinking Outside The Box“ þar sem fjallað var um rannsóknir í taugalíffræði og þetta er mjög áhugavert svið.

Mig langar að spyrja hv. þingmann: Það eru 250 mismunandi sveppategundir sem innihalda sílósíbín. Vex einhver af þeim tegundum á Íslandi? Það kemur fram að varsla þessa efnis er óheimil, samkvæmt hinni hefðbundnu skilgreiningu í lögum um ávana- og fíkniefni frá 1974. En svo segir líka, eins og kom fram í máli framsögumanns áðan, að sílósíbín sé ekki ávanabindandi. Samt fellur það undir skilgreiningu laga um ávana- og fíkniefni. Þetta er ólöglegt efni á Íslandi, er það ekki? Ég er svolítið í vafa, en það kemur fram í greinargerð að þetta sé ólöglegt ávana- og fíkniefni í Bandaríkjunum og hefur verið frá 1971. Það væri gott að fá svar við þessari spurningu, hvort efnið sé ekki örugglega ólöglegt hér. Og ef efnið er ekki ávanabindandi, af hverju er það þá ólöglegt? Það er grundvöllur þess að efnið sé ólöglegt að það sé einmitt ávana- og fíkniefni.