Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 28. fundur,  9. nóv. 2022.

fyrirkomulag matvælaframleiðslu til neyðarbirgða.

397. mál
[18:09]
Horfa

Flm. (Þórarinn Ingi Pétursson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Smjörfjall og kjötfjall — við þekkjum þá umræðu og hún var frekar neikvæð. En í dag búum við ekki við kjötfjall og smjörfjall — ég ætla ekki að segja að við búum ekki við þann kost — enda voru tímarnir aðrir, við skulum bara orða það þannig. Við skulum hafa í huga að við erum að tala um birgðir. Við þurfum líka að horfa til þess að innlend matvælaframleiðsla er mjög háð erlendum aðföngum. Þau getur líka brostið. Við þurfum alltaf að búa í haginn að einhverju leyti, hvort sem eigum eitthvert magn af kjöti, grænmeti, mjólkurafurðum og korni eða ekki. Við þurfum líka að búa í haginn eins og kemur ágætlega fram í skýrslu um neyðarbirgðir sem forsætisráðherra hafði forgöngu um, sem snýr t.d. að olíu, áburði og þess háttar og varahlutum í vélum og öllu því sem þessu fylgir, öllu þessu langa ferli. Mitt svar er svo sem ekkert mjög einfalt í þessu samhengi, hvernig við eigum að geyma þetta eða hversu lengi, ég hef þau svör ekki á takteinum. Við þurfum að skoða það ofan í grunninn. Hvað teljum við t.d. vera hæfilegar birgðir af olíu í landinu? Það hefur verið getið um það í skýrslu um neyðarbirgðir. Við getum líka velt því fyrir okkur hversu miklar birgðir við þurfum að eiga af tilbúnum áburði af því að við erum ekki að framleiða hann hér o.s.frv. Allt þetta þarf að skoða í framhaldinu, hvernig við sjáum þessa hluti fyrir okkur.