Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 28. fundur,  9. nóv. 2022.

fyrirkomulag matvælaframleiðslu til neyðarbirgða.

397. mál
[18:14]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Þórarni Inga Péturssyni fyrir framsöguna. Ég er meðflutningsmaður á þessari tillögu um fyrirkomulag matvælaframleiðslu til neyðarbirgða. Í tillögunni segir að Alþingi álykti að fela matvælaráðherra að útfæra fyrirkomulag vegna neyðarbirgða landbúnaðarafurða sem hægt sé að framleiða hér á landi. Ég er sammála þessu en mér finnst að þetta nái ekki alveg utan um vandamálið. Þetta er hluti af vandamálinu ef við horfum á þetta út frá þeim neyðarbirgðum sem er mikilvægt að hafa.

Ég er með nokkrar spurningar til hv. þingmanns varðandi kortlagninguna á stöðunni og lágmarksbirgðir. Það þarf væntanlega að vera kerfi til að endurnýja lágmarksbirgðir. Hve langan tíma á t.d. að geyma þessar neyðarbirgðir og þarf ekki að vera rúllandi endurnýjun á neyðarbirgðum svo að þær verði ekki gamlar og rotni og mygli o.s.frv.? Væri ekki rétt að það væri einhver ákveðin stofnun sem sæi um þetta, eins og þjóðaröryggisráð, sem sæi um eftirlit með þessum neyðarbirgðum?

Annað sem ég tek eftir í greinargerðinni varðar neyðarbirgðir sem hægt er að framleiða hér á landi. Þá fer maður strax að velta fyrir sér: Hvað með neyðarbirgðir sem ekki er hægt að framleiða hér á landi, t.d. olíu og önnur erlend aðföng? Varðandi landbúnaðarframleiðslu — það þarf náttúrlega olíu á dráttarvélarnar og önnur aðföng til að halda við dráttarvélunum og tækjunum, til að keyra þau áfram. Ég veit að í Bandaríkjunum eru neyðarbirgðir af olíu gríðarlegar, bæði út af heraflanum og líka út af samfélaginu. Vantar ekki líka að taka það inn í mengið, þ.e. neyðarbirgðir sem lúta að landbúnaðarframleiðslunni? Ekki tökum við upp eylandsljáinn og förum að slá. Við þurfum að yrkja jörðina með þeim erlendu tækjum sem við höfum sem eru drifin áfram á olíu. Við erum ekki enn búin að rafvæða allan flotann. Ég bíð með næstu spurningu þar til í síðara andsvari.