133. löggjafarþing — 29. fundur,  16. nóv. 2006.

utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[16:19]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég flyt nú seinni ræðu mína um ræðu hæstv. utanríkisráðherra sem flutt var í dag. Í fyrri ræðu minni fór ég yfir nokkra punkta og minntist aðallega á þrjú atriði.

Ég minntist á innrásina í Írak og stuðning íslensku ríkisstjórnarinnar við þá innrás, sem aldrei hefði átt að verða. Ég talaði um málefni norðurhafa og Svalbarðamálið og óskað eftir svörum frá hæstv. ráðherra um stöðu þeirra mála, þ.e. stöðu íslenskra stjórnvalda gangvart hugsanlegri málsókn gegn Norðmönnum fyrir alþjóðadómstól vegna Svalbarðasvæðisins.

Ég talaði líka um ástandið fyrir botni Miðjarðarhafs og sagði eitthvað á þá leið að ástandið þar væri afskaplega eldfimt, mjög eldfimt. Sennilega er þar að finna kveikjuþráðinn að stórstyrjöld ef fram fer sem horfir.

Rétt eftir að ég kom úr ræðustól í hádeginu barst mér tölvupóstur frá mannréttindasamtökum í Ísrael. Ég geri ráð fyrir því, virðulegi forseti, að það hafi einungis verið tilviljun. En níu mannréttindasamtök í Ísrael sendu frá sér sameiginlega yfirlýsingu til alþjóðasamfélagsins í dag. Þar er bent á hið hroðalega ástand sem ríkir núna á Gaza-svæðinu. Þar er fullyrt, og sjálfsagt engin ástæða til að draga það í efa, að rúmlega 80% af íbúum á Gaza-ströndinni séu mjög fátækir. Fólkið lifir á undir tveimur bandaríkjadollurum á dag. Stærstur hluti fólksins sem þar býr, þ.e. Palestínumanna, er háður matargjöfum frá alþjóðlegum hjálparsamtökum og öðrum sem gefa þeim vistir.

Á síðustu fjórum mánuðum hefur Ísraelsher drepið rúmlega 400 Palestínumenn á Gaza-ströndinni. Helmingur þeirra voru óvopnaðir borgarar sem tóku á engan hátt þátt í bardögum. Meðal þeirra sem hafa fallið á undanförnum fjórum mánuðum er 61 barn. Rúmlega 70% af vinnuafli, þ.e. verkfærum mönnum og konum á svæðinu, eru án atvinnu eða án launa.

Þann 28. júní síðastliðinn gerði Ísraelsher sprengjuárás á eina af stærstu orkustöðvunum á Gaza-svæðinu, sem framleiddi 43% af því rafmagni sem íbúar á Gaza þurfa á að halda. Síðan hefur fólkið sem býr á Gaza-ströndinni verið án rafmagns 6 til 8 tíma á dag. Þetta hefur haft hroðaleg áhrif, t.d. á vatnsöflun, á frárennsli, geymslu matvæla, starfsemi sjúkrahúsa og heilsuástand almennings yfir höfuð.

Það er búið að loka Gaza-ströndinni nær algjörlega frá heiminum, útiloka hana algjörlega frá heiminum. Palestínumenn hafa enga möguleika til að ferðast inn og út af svæðinu. Ef menn muna hvernig þetta svæði er á korti, þá er þetta við ströndina fyrir botni Miðjarðarhafs. Ef ég man rétt þá eru syðri landamærin móti Egyptalandi en síðan eru öll önnur landamæri í austur og norður að Ísrael og hafið sjálft í vestri. Fólkið kemst ekkert.

Það er erfitt að koma vistum á svæðið. Ísraelsmenn, samkvæmt þessari yfirlýsingu, taka enga ábyrgð á ástandinu og halda því í raun í járngreipum. Ísraelsmenn ráða algjörlega yfir loftrýminu, þ.e. það er ekki hægt að nota flugvélar eða neitt þess háttar til að koma fólki til aðstoðar. Þeir passa líka upp á að enginn komist að Gaza-ströndinni af sjó, samkvæmt þessari yfirlýsingu.

Þeir halda utan um alla skráningu á fólki á svæðinu og koma í veg fyrir að fólk sem annars vegar býr á Gaza-ströndinni, þ.e. Palestínumenn, og síðan Palestínumenn sem búa á Vesturbakkanum, sem kallaður er, þ.e. öðrum hluta Palestínu, fá ekki að fara á milli. Fjölskyldur fá ekki að sameinast. Þarna eru miklir vegatálmar og nánast ómögulegt að komast á milli staða.

Ísraelsmenn, eins og við höfum séð af fréttum, eru stöðugt með hernaðaraðgerðir inni á þessu svæði sem tilheyrir Palestínu, stöðugt með hernaðaraðgerðir og árásir. Ísraelsmenn stjórna öllum innflutningi og útflutningi. Ísraelsmenn hafa einnig tekið yfir skattkerfið á svæðinu og síðan í febrúar hafa þeir haldið eftir því skattfé sem palestínskum stjórnvöldum bar að fá frá sínum borgurum. Það hefur náttúrlega skapað mjög erfitt efnahagsástand.

Virðulegi forseti. Þessi yfirlýsing frá níu mannréttindasamtökum í Ísrael — tökum eftir því að þau eru í Ísrael — barst til okkar þingmanna um hádegisbilið í dag. Þetta er neyðarkall frá mannréttindasamtökum í Ísrael. Hér er m.a. B'Tselem samtökin sem stunda eins konar mannréttindavakt í Ísrael og reyna eftir bestu getu að fylgjast með málum í Palestínu þótt ísraelski herinn og yfirvöld torveldi þar mjög störf þeirra. Ég veit það af því að ég heimsótti höfuðstöðvar þeirra þegar ég fór til Ísraels og Palestínu í fyrra. Hér er m.a. Ísraelsdeild Amnesty International, samtök lækna sem berjast fyrir mannréttindum, samtök rabbía sem berjast fyrir mannréttindum, samtök sem berjast gegn pyndingum og ýmis önnur samtök sem eru að berjast fyrir mannréttindum í Ísrael. Þau benda á að ástandið á Gaza-ströndinni sé grafalvarlegt. Fólki er haldið þar nánast eins og fuglum í búri og ég held að öllum sem vilja sjá sé ljóst hvað er að gerast þar. Það er hreinlega hægt og bítandi verið að draga allan lífsmátt úr þessu fólki. Því er haldið í eins konar gettói og þarf að búa við miklar raunir.

Þetta er náttúrlega, virðulegi forseti, að mínu mati og okkar í Frjálslynda flokknum gersamlega ólíðandi framferði. Að hernámsþjóð sem vill telja sig til vina Vesturlandanna og hefur lofað að styðja okkur Íslendinga til setu í öryggisráðinu, sem ég tel frekar vafasaman heiður. Það er ólíðandi að slík þjóð skuli látin komast upp með svona framferði gagnvart borgurum annarrar þjóðar, gagnvart nágrönnum sínum. Við hljótum að fordæma þetta. Þetta er ekki hægt að líða. Virðulegi forseti. Mig langaði að koma aðeins inn á þessa yfirlýsingu frá mannréttindasamtökum í Ísrael.

Ef við víkjum að ræðu hæstv. utanríkisráðherra og förum hratt yfir hana þá er margt ágætt í henni þótt ég hafi gagnrýnt hana fyrir að sleppa ýmsu sem skiptir miklu máli. Þar er til að mynda komið inn á framtíð varnarsvæðisins á Suðurnesjum og talað um rekstur alþjóðaflugvallarins, öryggissvæðið, Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar ehf. og annað í þeim dúr.

Mig langaði, virðulegi forseti, vegna þess að ég missti af utandagskrárumræðu í gær um Landhelgisgæsluna og staðsetningu hennar — var staddur annars staðar við skyldustörf — að lýsa þeirri skoðun minni að ég tel að íhuga eigi mjög vandlega að Landhelgisgæslan verði flutt til Keflavíkurflugvallar.

Ég heimsótti Keflavíkurflugvöll ásamt þingmönnum Suðurkjördæmis fyrir nokkrum dögum. Það var á margan hátt merkilegt að sjá þær miklu byggingar og verðmæti sem þar hafa verið skilin eftir. Þar er, a.m.k. fyrir leikmann, ekki annað að sjá en að þar sé afskaplega góð aðstaða fyrir stofnun eins og Landhelgisgæsluna. Þar eru góð stæði fyrir þyrlur, góð flugskýli og góður aðbúnaður að öllu leyti. Þarna er íbúðarhúsnæði, ef fólk vill búa þarna. Þarna er mjög mannvænt, vil ég segja, íbúðarhverfi. Góðar íbúðarblokkir, stór leiksvæði á milli fyrir börn og leiktæki. Þarna virðist allt til alls.

Síðan er höfn í Njarðvík og í Keflavík þar sem gæsluskipin gætu verið, nú eða í Helguvík. Mér finnst það í raun augljóst að það sé rétta lausnin varðandi framtíðarstaðsetningu Landhelgisgæslunnar og að það þurfi varla að ræða það. En að sjálfsögðu þarf að skoða þau mál með faglegum hætti og fara betur ofan í það. En ég vil eindregið mæla með því að þetta verði gert, virðulegi forseti.

Varðandi framtíðarskipan varnarmála og öryggismál á Íslandi þá virðast þau mál komin í ákveðinn farveg. Ég hefði þó viljað sjá að íslensk stjórnvöld sýndu meira sjálfstæði og djörfung í að leita nýrra leiða í þessum málefnum til framtíðar. Ég held að þau stjórnvöld sem nú eru við völd í Bandaríkjunum, sem bera ábyrgð á innrásinni í Írak, séu afskaplega vafasamur félagsskapur fyrir okkur Íslendinga.

Við skulum þó vona að þeim öflum sem nú ráða í Bandaríkjunum verði bolað frá völdum hið fyrsta og þar taki við betra fólk. Ég ætla ekki að vera dónalegur hér í ræðustóli og verð að gæta orða minna. En ég vonast til að annað fólk taki við. Ég get eiginlega ekki orðað þetta án þess að vera dónalegur og held að ég segi ekki meira. En ég tel afskaplega vafasamt fyrir íslensk stjórnvöld að vera í slagtogi með þessum mönnum.

Mér þótti neyðarlegt að sjá íslenska ráðamenn í Bandaríkjunum um daginn elta nánast uppi þessa ráðherra í Bandaríkjunum og keppast við að láta taka af sér myndir við hliðina á þeim. Ég verð að segja það að ég hefði ekki verið svo gírugur í það. Ég hefði ekki látið taka mikið af myndum af mér í þeim selskap.

En nóg um það, virðulegi forseti. Ég hygg að við Íslendingar ættum að reyna að leita frekari leiða varðandi samvinnu í þessum málum, sérstaklega um vöktun á hafinu, bæði öryggisvöktun, umhverfisvöktun og annað þess háttar. Við ættum að leita samvinnu um það við nágrannaþjóðir okkar. Þá er ég fyrst og fremst að hugsa um Norðurlöndin. Við vitum að Danir hafa verulegra hagsmuna að gæta í norðurhöfum. Þeir eru jú á Grænlandi og gæsluskip þeirra koma iðulega til Íslands, til Reykjavíkur og jafnvel annarra hafna til að taka vistir og skipta um áhafnir.

Norðmenn hafa sýnt þessum málum mikinn áhuga. Ég var áðan að horfa á afskaplega áhugavert viðtal við Thorbjørn Jagland, sem er forseti norska Stórþingsins og fyrrverandi forsætisráðherra í Noregi. Ég minntist á hann í fyrri ræðu minni líka. Mig langar að vekja athygli þingmanna á afskaplega áhugaverðu viðtali sem Helgi H. Jónsson, fréttamaður á sjónvarpinu, tók við hann í Norræna húsinu. Það var sýnt á Ríkisútvarpinu í gærkvöldi. Það er hægt að sjá þetta viðtal á netinu. Þar kemur Jagland einmitt inn á það sem ég fjallaði um í fyrri ræðu minni, þ.e. að ákveðnir möguleikar virðast fyrir hendi varðandi slíkt samstarf á milli Íslendinga og Norðmanna.

Þar held ég að séu mikil tækifæri, virðulegi forseti, ef rétt er á málum haldið og ef menn vanda sig held ég að við getum komið á fót gjöfulu og góðu samstarfi við frændur okkar og vini í Noregi. Þeir hafa á undanförnum missirum farið út í mikla uppbyggingu á flota sínum. Það er talað um að eftir nokkur ár verði norski flotinn öflugasti floti Evrópu. Þeir eru að láta smíða sex nýjar freigátur. Þeir hafa endurnýjað nánast algerlega strandgæsluskipin sín og eiga orðið glæsilegan flota, mjög vel útbúin, bæði til að sinna eftirliti en líka til að sinna mengunarvörnum og öðru þar fram eftir götunum.

Íslendingar þurfa náttúrlega sjálfir að taka til í eigin ranni. Við erum að efla þyrlusveitina okkar og allt er í góðu lagi með það. Við hyggjumst fara út í að láta smíða fyrir okkur nýtt varðskip. Við ættum að gera þetta allt meðan við leitum leiða til að vinna nánar með okkar næstu nágrönnum, þ.e. Norðurlandaþjóðum í norðurhöfum en gjarnan einnig með öðrum Evrópuþjóðum.