135. löggjafarþing — 29. fundur,  21. nóv. 2007.

raforkuverð.

125. mál
[13:20]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég get tekið undir það að ég hefði gjarnan viljað efnismeiri svör frá hæstv. ráðherra. Það er óvenjulegt að vísa spurningum til baka til spyrjanda og halda því fram að sá sem spyr sé betur til þess fær að svara en ráðherrann. Ég minnist þess varla að svo hafi verið áður en ég skal svo sem leggja mitt lið í þessu efni eins og ég mögulega get.

Ég held að það sé nokkuð vel staðfest að fiskvinnslan í landinu borgar a.m.k. þrefalt til fjórfalt verð á við áliðnaðinn. Það er nokkuð ljóst. Það liggur fyrir, ef við skoðum tölur Samtaka fiskvinnslustöðva, og ef við höfum í huga þær tölur sem ráðherra nefndi um trygga orku og bætum virðisaukaskatti ofan á það verð, að þá erum við komin á þær slóðir að orkuverð til fiskvinnslunnar er þrefalt og sennilega nær því að vera fjórfalt það sem álverin eru að borga, ef þau borga þó það sem hér er lagt til grundvallar þ.e. 1,5 til 2 kr. á kílóvattsstund. Er nema von að stóriðnaður í landinu þykist nokkuð grátt leikinn að geta ekki fengið hina innlendu orku á betri kjörum en þetta, borið saman við áliðnaðinn, sem hann auðvitað keppir við á ýmsan hátt, t.d. um vinnuafl? Honum veitti ekki af, afkomu sinnar vegna, að standa þar sterkar að vígi.

Varðandi upplýsingar frá Landsvirkjun og Orkuveitu Reykjavíkur þá hef ég einmitt flutt hér frumvarp til breytinga á raforkulögum um að þessi leynd verði afnumin. Ég skora á hæstv. iðnaðarráðherra að standa með okkur að því að slá leyndina út af borðinu. Þetta er fráleitt, að menn skuli koma sér undan allri upplýstri umræðu um þessi mál í skjóli slíkrar leyndar sem var innleidd af innlendum pólitískum ástæðum og hin erlendu fyrirtæki báðu ekki einu sinni um.

Varðandi ítök í Orkuveitu Reykjavíkur þá ætti hæstv. iðnaðarráðherra að minnsta kosti að geta hringt í stjórnarformanninn sem ég veit ekki betur en sé, a.m.k. enn sem komið er, flokkssystir hans, Bryndís Hlöðversdóttir.

En að lokum hefði ég gjarnan kosið að hæstv. ríkisstjórn hefði t.d. hugað að þessum þætti í hinum meintu mótvægisaðgerðum sínum vegna niðurskurðar þorskafla sem bitnar mjög tilfinnanlega á fiskvinnslu og veldur þar tekjusamdrætti og hefði ekki af því veitt að koma til móts við hana, t.d. með tímabundnum (Forseti hringir.) ráðstöfunum í formi afslátta eða endurgreiðslu á raforkukostnaði.