138. löggjafarþing — 29. fundur,  19. nóv. 2009.

2. umræða um Icesave og kvöldfundur.

[11:46]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég er landsbyggðarþingmaður og hafði mælt mér mót við marga kjósendur á morgun þar sem það liggur fyrir að á morgun og mánudag eru kjördæmadagar. Fyrir marga landsbyggðarþingmenn er um langan veg að fara og þess vegna ljóst að verði kvöldfundur í kvöld og standi jafnvel lengi er mjög brýnt að við þingmenn fáum upplýsingar um það hversu lengi fundur á að standa þannig að við getum þá brugðist við og endurraðað dagskrá okkar fyrir morgundaginn. Ég tek undir með hv. þm. Ragnheiði Elínu Árnadóttur sem talaði áðan og óskaði eftir því að forseti upplýsti okkur um það hversu lengi fundurinn skuli standa. Þar sem kvöldfundir hafa verið nánast á hverju kvöldi í þessari viku þrátt fyrir að forsætisnefnd hafi fjallað um það þegar gerð var starfsáætlun þingsins að kvöldfundir skyldu vera undantekning en ekki meginregla er brýnt að þá sé farið yfir það hér og við upplýst um það, þingmenn, hversu lengi sé ætlast til að við verðum hér í kvöld.