140. löggjafarþing — 29. fundur,  30. nóv. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[16:25]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Ég vil taka undir hvatningarorð félaga míns, hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar, um að meiri hluti fjárlaganefndar taki þá liði sem tengjast framhaldsskólunum sérstaklega til endurskoðunar. Það er ljóst að framhaldsskólarnir á landsbyggðinni en ekki síður á höfuðborgarsvæðinu og á Stór-Hafnarfjarðarsvæðinu eru undir miklum þrýstingi. Það er þó fagnaðarefni að tæplega 97% þeirra sem útskrifast úr grunnskóla fara í framhaldsskóla án þess að það sé skólaskylda.

Á móti kemur að þrengslin eru mikil í framhaldsskólunum, þeir eru byrjaðir að þjappa mun meira. Það þýðir að minna framboð verður á iðn- og starfsnámi og erfiðara verður, ekki síst fyrir framhaldsskólana á suðvesturhorninu, að taka við einstaklingum með sérþarfir sem þurfa að uppfylla sínar námskröfur og -skilyrði innan skólakerfisins. Því vil ég sérstaklega hvetja fjárlaganefndarmenn til að skoða þá liði sem tengjast framhaldsskólum landsins.