140. löggjafarþing — 29. fundur,  30. nóv. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[18:34]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Hér eru heimildir um að kaupa og leigja húsnæði út um allt. Allt galopið, engar upphæðir, bara heimildir. Síðan er heimild til að leggja bönkum og sparisjóðum að hluta eða fullu í eigu ríkisins til aukið eigið fé. Hvað þýðir þetta eiginlega? Hversu margir milljarðar eru þetta? (Gripið fram í: Margir.) Og veita nýja Landspítalanum ohf. skammtímalán vegna undirbúnings hönnunar nýs Landspítala. Hvað þýðir þetta? Þetta er galopið, frú forseti.

Ég er eindregið á móti þessu. Þetta er andstætt stjórnarskránni þar sem stendur að ekki megi greiða úr ríkissjóði neina peninga nema heimild sé fyrir því í fjárlögum eða fjáraukalögum. Sú heimild hlýtur að vera bundin við einhverja upphæð. Það getur ekki verið galopið. Ég greiði atkvæði gegn þessu og skora á alla hv. þingmenn að greiða atkvæði gegn svona opnum heimildum.