140. löggjafarþing — 29. fundur,  30. nóv. 2011.

þriðja skýrsla eftirlitsnefndar um sértæka skuldaaðlögun.

[18:56]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Forseti. Ég ætla ekki að eyða tíma mínum í að endurtaka skoðanir mínar um þau sértæku úrræði ríkisstjórnarinnar sem eru svo sértæk að þau gagnast ekki neinum. Ég vil aðeins segja eitt um 110%-leiðina: Til þess að skilja hana þarf maður fyrst að skilja 100%-leiðina, hún heitir gjaldþrot.

Í samantektarkafla skýrslunnar segir að sambærileg mál virðast leyst með sambærilegum hætti. Ég vil segja að það að eitthvað sé sambærilegt er ekki gæðastimpill á þær aðferðir sem er beitt til úrlausnar.

Mig langar að leggja nokkrar spurningar fyrir ráðherra:

Hvað er hægt að gera við fyrirtæki eins og Lýsingu þegar afstaða stjórnar stöðvar framgang ýmissa mála þar?

Hvenær verður búið að taka fyrir öll mál sem þarf fyrir dómstólum, þ.e. hvenær verður allri óvissu um lánaform eytt og til dæmis um afturvirkni vaxtaútreikninga vegna laga nr. 151/2010?

Hvað um jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar þegar tvö ríkisapparöt á borð við Landsbankann annars vegar og Íbúðalánasjóð hins vegar vinna með gerólíkum hætti úr málum?

Síðasta spurningin: Hvað með samkeppnissjónarmið þegar fjármálafyrirtæki samhæfa aðgerðir í þessum málum með samkomulagi?