142. löggjafarþing — 29. fundur,  17. sept. 2013.

afnám hafta og uppgjör gömlu bankanna.

[14:21]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F):

Virðulegi forseti. Það ber að þakka málshefjanda fyrir þessa umræðu sem er þörf og góð. Ég held að mikilvægt sé að hér komi fram, eins og hv. þm. Guðmundur Steingrímsson bendir á, að þverpólitísk samstaða er um þetta mál. Við getum öll staðið saman um að við viljum að vandað verði mjög vel til verks. Við viljum að sjálfsögðu öll að þetta verði leyst sem allra fyrst en þó ekki hraðar en svo að hægt sé að vanda vinnuna.

Ég segi fyrir mitt leyti að ég treysti ríkisstjórninni og hennar fólki, sérfræðingum, til að leysa þetta með besta mögulega hætti. Okkur liggur mjög mikið á, að sjálfsögðu, og hefur legið mikið á lengi en kröfuhöfum liggur líka á. Eins og fram hefur komið hérna í salnum áður er í rauninni allra hagur að þetta mál leysist farsællega. Það þarf að taka tillit til þess að við fáum ekki tvö tækifæri til að gera þetta. Við þurfum að gera þetta rétt í upphafi. Það er mjög mikilvægt að við sköpum ekki þann þrýsting óviljandi á ríkisstjórnina að þetta verði leyst með einhverjum ambögum. Það þarf að velja réttu ráðgjöfina, rétta fólkið og brýnt er að það verði gert þannig að fjármálastöðugleiki haldist og vandamálið verði leyst í eitt skipti fyrir öll hvað varðar gjaldeyrisjafnvægi þjóðarinnar til lengri tíma litið.

Ég fagna þessari umræðu og þakka fyrir samstöðu meðal þingmanna, eins og hér hefur greinilega komið fram, og óska sem sagt eftir og treysti því að við fáum að vita jafnóðum og fram vindur það sem við þurfum að vita hér á þinginu.