142. löggjafarþing — 29. fundur,  17. sept. 2013.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

48. mál
[15:44]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Ragnheiður Ríkharðsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Sem framsögumaður mæli ég fyrir nefndaráliti með breytingartillögu frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar um frumvarp til laga … (Forseti hringir.)

(Forseti (KLM): Forseti vill biðja um hljóð í þingsal svo að ræðumaður geti flutt mál sitt án truflana.)

… um breytingu á lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, með síðari breytingum, (innri endurskoðun, skilyrði til greiðslu örorkulífeyris, meðferð framlags til starfsendurhæfingar, fjárfestingarheimildir, leyfilegur munur á milli eignarliða og lífeyrisskuldbindinga o.fl.).

Nefndin hefur fjallað um málið. Á fund hennar komu Gunnar Björnsson, Anna Valbjörg Ólafsdóttir og Lilja Sturludóttir frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu.

Hæstv. forseti. Að 12. gr. undanskilinni er efni frumvarpsins hliðstætt efni tveggja frumvarpa sem lögð voru fram á síðasta löggjafarþingi, málum nr. 469 og 625. Þau frumvörp afgreiddi nefndin ekki á því löggjafarþingi þótt hún hefði aflað umsagna og tekið á móti nokkrum gestum.

Að mati meiri hlutans fela flestar greinar frumvarpsins í sér tillögur um tæknilegar breytingar settar fram í þeim tilgangi að samræma hugtaka- og orðanotkun á sviðum löggjafar þar sem skörunar gætir.

Virðulegur forseti. Á undanförnum missirum hafa stjórnvöld og aðilar vinnumarkaðarins unnið að tillögum um eitt lífeyriskerfi fyrir alla landsmenn. Ýmis atriði eru enn óútkljáð í þeirri vinnu og að mati meiri hlutans er rétt að veita aukinn tímafrest til að leiða þá vinnu til lykta. Slík tillaga felst í b-lið 12. gr. þar sem lagt er til að lífeyrissjóðum verði heimilað að hafa meiri mun á milli eignarliða og lífeyrisskuldbindinga en nemur 10%. Er heimildinni ætlað að gilda í allt að sex ár frá og með árinu 2008.

Frumvarpið var lagt fram 11. september sl. og mælt fyrir því degi síðar. Á fundi nefndarinnar var sú skoðun almenn að tilteknar greinar frumvarpsins þörfnuðust viðameiri yfirferðar en möguleg væri á þeim skamma tíma sem eftir er af líðandi löggjafarþingi. Til þess að sú vinna tefji ekki þær breytingar sem lagðar eru til í öðrum greinum leggur meiri hlutinn til þá breytingu að í frumvarpinu verði þrjár greinar þess felldar brott.

Hæstv. forseti. Meiri hluti nefndarinnar leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi breytingu:

1. 2. gr. falli brott.

2. 8. gr. falli brott.

3. 13. gr. falli brott.

4. Fyrirsögn frumvarpsins verði: Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, með síðari breytingum, þ.e. innri endurskoðun, meðferð framlags til starfsendurhæfingar, form og efni fjárfestingarstefnu, leyfilegur munur á milli eignarliða og lífeyrisskuldbindinga o.fl.

Hæstv. forseti. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon var fjarverandi við afgreiðslu málsins en er fylgjandi afgreiðslunni og ritar undir álit þetta, sbr. 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis.

Undir nefndarálitið rita Frosti Sigurjónsson, formaður nefndarinnar, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, framsögumaður nefndarinnar, Willum Þór Þórsson, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, Guðmundur Steingrímsson, Líneik Anna Sævarsdóttir, Steingrímur J. Sigfússon og Vilhjálmur Bjarnason.