142. löggjafarþing — 29. fundur,  17. sept. 2013.

sæstrengur.

[16:31]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf):

Herra forseti. Þessi missirin er ég afskaplega upptekin af hugtakinu verðmætasköpun. Þingið og samfélagið allt stendur frammi fyrir því að mikilvægir innviðir á við til dæmis heilbrigðiskerfið eru afskaplega illa staddir. Ljóst er að við verðum að vinna að því harðari höndum að skapa meiri verðmæti til að standa straum af kostnaði. Eins er auðvitað gríðarlega mikilvægt að huga vandlega að verðmætasköpun í þeim tilgangi að rétta af halla ríkissjóðs og til að draga úr kostnaði af vaxtagreiðslum ríkisins.

Forstjóri Landsvirkjunar hefur samkvæmt frétt Stöðvar 2 frá 26. júní sl. lýst því yfir, með leyfi forseta, að „lagning sæstrengs geti verið eitt stærsta viðskiptatækifæri sem Íslendingar standa frammi fyrir“.

Í umræðunni um sæstreng og sölu á raforku um hann er mikilvægt að hafa á hreinu um hvaða vöru er verið að ræða. Landsvirkjun selur svokallaða grunnorku sem er mjög áreiðanleg orka til iðnaðar og til einstaklinga hér á landi. Þetta er aðalsöluvara Landsvirkjunar.

Önnur vara er Landsvirkjun gæti haft upp á að bjóða með tilkomu sæstrengs er hin svokallaða stýranlega orka. Stýranleg orka er sá einstaki eiginleiki vatnsorkunnar að hægt sé að geyma raforkuna í uppistöðulónum en þessi aðferð við að geyma raforku er sú langhagstæðasta sem veröldin þekkir í dag. Stýranleg orka er ekki alveg eins áreiðanleg og grunnorkan af því að hún kemur í toppum og fer eftir skilyrðum hverju sinni.

Staðreyndin er sú að það er ekki eftirspurn eftir stýranlegri orku á Íslandi en hins vegar er ljóst að hún er gríðarleg í Bretlandi og mun fara vaxandi ef spár ná fram að ganga. Með orkustefnu þeirri er Norðmenn hafa markað sér horfa þeir stíft til þess að gera mun meiri verðmæti úr vatnsorkuverum sínum með nákvæmlega þessum hætti, að nýta þau til þess að vinna stýranlega orku. Eins og áður sagði hafa Bretland og önnur Evrópulönd sýnt þessari tilteknu vöru áhuga því að hún samrýmist vel markmiðum þeirra um val á grænni orku og getur verið liður í því að minnka notkun á óumhverfisvænum orkugjöfum sem auka kolefnisútblástur á jörðinni.

Í þessari umræðu er líka mikilvægt að koma inn á verðið sem þessar tvær mismunandi vörur bera. Landsvirkjun selur grunnorkuna á 27 dollara fyrir megavattstundina að meðaltali en við vitum að verð til stóriðju er talsvert lægra en það. Breska ríkisstjórnin kaupir endurnýjanlega orku í Bretlandi á miklu hærra verði, allt upp undir 200 dollara á megavattstundina, stundum hærra. Það er meira en sjö sinnum hærra verð en Íslendingar fá að meðaltali fyrir sína grunnorku. Þar með er ljóst að um er að ræða gríðarlegt tækifæri til að afla arðs í gegnum Landsvirkjun inn í íslenskt samfélag á sjálfbæran hátt og í samræmi við rammaáætlun.

Árið 2012 skrifuðu bresk og íslensk stjórnvöld upp á viljayfirlýsingu um samstarf á sviði orkumála. Það ár skipaði líka þáverandi hæstv. iðnaðarráðherra, Oddný G. Harðardóttir, ráðgjafarhóp um mögulega lagningu sæstrengs. Í honum áttu sæti fulltrúar allra þingflokka, stærstu hagsmunasamtaka landsins og fyrirtækjanna tveggja sem hlut eiga að máli, Landsvirkjunar og Landsnets. Sá ráðgjafarhópur skilaði af sér skýrslu til núverandi hæstv. ráðherra Ragnheiðar Elínar Árnadóttur þann 26. júní sl.

Ráðgjafarhópurinn reifaði málið vel og út frá mörgum hliðum en var samhljóða í sinni ályktun að það þurfi frekari upplýsingar til að unnt sé að fullyrða um þjóðhagslega hagkvæmni þess að leggja sæstreng milli Íslands og Bretlands. Þessi fjölbreytti hópur var sammála í þessari ályktun sinni. Enn fremur er lagt til að haldið verði áfram að kortleggja alla þætti verkefnisins innan lands um leið og leitað verði svara um möguleg rekstrar- og eignarhaldsmódel hjá viðsemjendum í Bretlandi. Þetta er sem sagt stór partur af upplýsingunum sem okkur vantar til að geta tekið afstöðu í málinu.

Í skýrslu sinni leggur ráðgjafarhópurinn til sjö skilgreindar tillögur til ráðherra. Sá fjórði er, með leyfi forseta, að „ráðuneytið leiti leiða til að afla ofangreindra upplýsinga s.s. með könnunarviðræðum við bresk stjórnvöld á grundvelli viljayfirlýsingar“ milli íslenskra og breskra stjórnvalda sem ég ræddi hér áðan.

Því vil ég spyrja hæstv. iðnaðarráðherra: Hvar standa þær viðræður? Hefur ráðherra farið eftir tillögum ráðgjafarhópsins og setið fundi með breskum stjórnvöldum til þess að kanna þetta hugsanlega einstaka viðskiptatækifæri Íslendinga?