142. löggjafarþing — 29. fundur,  17. sept. 2013.

sæstrengur.

[16:36]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir að vekja máls á þessu máli og gefa okkur tækifæri hér til að ræða það. Ég hef í hyggju að leggja þá skýrslu sem hv. þingmaður ræddi hér um fyrir þingið strax í haust og gefa þinginu þannig færi á að taka dýpri umræðu og vinna frekar með þetta mál en við getum gert hér í hálftímaumræðu.

Ég tel afar mikilvægt að Alþingi komi beint að þessu máli og inn í umræðuna vegna þess að það er rétt sem hv. þingmaður nefndi, ráðgjafarhópurinn komst að þeirri niðurstöðu að það þyrfti að skoða málið frekar og að það væru fjölmörg atriði sem skoða þyrfti betur.

Í skýrslunni lagði hópurinn til að frekari skoðun, eins og ég segi, færi fram á ýmsum þáttum málsins og að frekari upplýsingar þyrftu að liggja fyrir. Í niðurstöðum hópsins kemur meðal annars fram að margir óvissuþættir fylgi slíkri framkvæmd og að nauðsynlegt sé að frekari könnun fari fram áður en hægt sé að taka ákvörðun um framhaldið. Ég tek undir þessar ábendingar og tel rétt að fara sér hægt áður en nokkrar ákvarðanir eru teknar í þessum efnum. Enn fremur er mikilvægt að mínu mati að slík ákvörðunartaka verði byggð á okkar forsendum og óháð þrýstingi erlendis frá.

Varðandi spurningu hv. þingmanns um hvort ég hafi setið fundi eða átt í viðræðum, og ég mun koma að því hér á eftir, tel ég að áður en við förum út í efnislegar viðræður og áður en við förum út í samninga eða könnunarviðræður við önnur ríki verðum við að vita hvar við stöndum í þessu máli. Ég vil fá að heyra viðhorf Alþingis til þess áður en frekari skref eru tekin í þeim efnum.

Lagning sæstrengs með flutningsgetu upp á 700–1.200 megavött, eins og talað er um í skýrslunni, mun hafa í för með sér víðtæk áhrif, bæði efnahagsleg, samfélagsleg og umhverfisleg. Þar má nefna áhrif á orkuverð innan lands, aukningu þjóðartekna, hugsanleg ruðningsáhrif, umhverfisáhrif vegna nýrra virkjana og línulagna og orkuöryggi. Hver áhrifin verða er hins vegar enn að mörgu leyti óljóst og því þörf á áframhaldandi gagnaöflun áður en unnt er að taka upplýsta afstöðu til slíks verkefnis. Að auki eru síðan fjölmörg tæknileg atriði sem þarfnast nánari skoðunar þar sem sæstrengurinn yrði lengsti raforkustrengur sem lagður hefur verið.

Í einfaldari mynd hefur umræðunni um sæstreng stundum verið stillt upp þannig að tveir kostir séu í boði, annaðhvort að selja raforkuna til stóriðju eða flytja hana úr landi í gegnum sæstreng. Að mínu mati er hér um talsverða einföldun að ræða og málið mun flóknara en svo. Við verðum að hafa heildarmyndina í huga þegar rætt er um lagningu slíks strengs. Umræðan um stóriðju á það til að snúast að miklu leyti um nýjar virkjanir, nýjar flutningslínur og umhverfisáhrif en við verðum að hafa í huga að allir þessir þættir eiga jafnt við um lagningu sæstrengs.

Þannig er ljóst að núverandi flutningskerfi landsins er talsvert frá því að geta þjónustað sæstreng með flutningsgetu upp á 700–1.200 megavött. Áhrif sæstrengs á raforkuverð og atvinnumál hafa síðan að sjálfsögðu afar mikil áhrif á heildarmyndina og því brýnt að ítarlegar greiningar liggi fyrir áður en ákvörðun verður tekin. Á það hefur verið bent að með vísan til þess hversu umfangsmikið verkefni lagning sæstrengs er og hversu langan tíma það tekur sé ekki skynsamlegt að taka endanlega ákvörðun nema víðtæk sátt ríki um það, bæði innan Alþingis og í samfélaginu almennt.

Það er eiginlega ætlan mín með því að leggja skýrslu ráðgjafarhópsins fyrir þingið. Ég held að við þurfum að taka þessa umræðu, ræða þetta vandlega út frá öllum þessum hliðum og kanna hver hugur okkar á þinginu er og vonandi taka umræðuna meira úti í samfélaginu.

Þau álitamál sem fram koma í skýrslunni sjálfri og þau sem ég hef orðið áskynja eftir að skýrslan var kynnt eru til dæmis: Viljum við að íslensk raforka sé nýtt til atvinnuuppbyggingar á Bretlandi á sama tíma og við erum að kalla eftir aukinni fjárfestingu hérlendis og þurfum á því að halda að byggja upp atvinnu á tímum atvinnuleysis? Sætta íslensk heimili og íslenskt atvinnulíf sig við hærra raforkuverð hérlendis vegna þessarar ráðstöfunar? Er eitthvað hægt að gera í því til að koma til móts við það? Viljum við ráðast í frekari virkjanir til að þetta verkefni geti orðið að veruleika? Það magn raforku sem hér um ræðir er ekki til í kerfinu í dag.

Síðan eru einnig þær spurningar hvaða ímynd sæstrengur getur haft á okkur sem útflytjanda grænnar orku. Þau grænu fyrirtæki sem hingað koma sækja í okkar sjálfbæru orku. (Forseti hringir.) Með strengnum yrðum við tengd Evrópu og því hægt að flytja orku til Íslands líka um strenginn. Fyrirtæki á þessu sviði, þar á meðal í gagnaveraiðnaðinum, (Forseti hringir.) hafa gert athugasemdir við þetta atriði.

Herra forseti. Þessi umræða er hvergi nærri tæmd og við munum taka hana nánar þegar þing kemur saman í október.