142. löggjafarþing — 29. fundur,  17. sept. 2013.

leikskóli að loknu fæðingarorlofi.

37. mál
[17:08]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf):

Herra forseti. Ég vil fagna þeirri umræðu sem þingflokkur VG, Vinstri hreyfingar — græns framboðs, hefur hafið hér um leikskóla að loknu fæðingarorlofs, þ.e. leikskóla milli fæðingarorlofs og hefðbundins leikskóla sem byrjar tveggja ára. Það er í framhaldi af lögum nr. 143/2012, um rétt til fæðingarorlofs, til að tengja þá lengingu saman. Eins og fram kemur í tillögunni eru börn á Íslandi ekki skólaskyld á leikskólaaldri og mig langar að koma því að af því að mér fannst ég heyra hv. þm. Svandísi Svavarsdóttur nefna í máli sínu að leikskóli væri lögboðin þjónusta. Hún er það ekki. Það eru lög um leikskóla en sveitarfélögin eru ekki skyldug til þess að reka leikskóla. Það er þannig að þau hafa samt séð sóma sinn í því að reka leikskóla og bera auðvitað af því umtalsverðan kostnað ásamt foreldrum. Því finnst mér mikilvægt í öllu tali og ályktunum frá þinginu um leikskóla að ákveðinnar hógværðar gæti gagnvart sveitarfélögunum. Við skulum endilega hvetja til samráðs og samstarfs, ekki síst milli atvinnulífs, sveitarfélaga og Alþingis og það er gott að ríkið sé stoð til þessa.

Ég held það færi vel á því að við á Alþingi mundum leita leiða til þess að taka þátt í þeim kostnaði, til þess að brúa þetta bil og fagna umræðu og sjónarmiðum hv. þm. Svandísar Svavarsdóttur, þ.e. sjónarmiðum hennar um kynjajafnrétti sem hún reifaði hér í þessu sambandi öllu.