143. löggjafarþing — 29. fundur,  29. nóv. 2013.

flutningur stjórnsýslu um málefni hreindýra.

202. mál
[11:56]
Horfa

Flm. (Valgerður Gunnarsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég flyt hér tillögu til þingsályktunar sem hljóðar á þann hátt:

„Alþingi ályktar að fela umhverfis- og auðlindaráðherra að hefja undirbúning að flutningi stjórnsýslu um málefni hreindýra til hreindýraráðs.“

Meðflutningsmaður minn er Guðlaugur Þór Þórðarson.

Þetta kemur fyrst og fremst til af því að þegar við þingmenn Norðausturkjördæmis fórum um kjördæmið í kjördæmaviku á liðnu hausti kom það ítrekað fram hjá sveitarstjórnarmönnum að þeir teldu eðlilegt að yfirstjórn hreindýra og málefna hreindýra væri í höndum heimamanna. Forsagan er sú að árið 2003 færðist stjórn veiðanna frá hreindýraráði á Austurlandi til veiðistjórnunarsviðs Umhverfisstofnunar. Heimamenn verða áþreifanlega varir við að vald þeirra og þekking nýtist ekki á sama hátt og var á meðan svonefnt hreindýraráð hafði yfirstjórn með málefnum tengdum hreindýrum, svo sem ágangi og veiði á Austurlandi.

Hreindýr eru ekki landnámsdýr á Íslandi, þau voru flutt hingað til lands á 18. öld, nánar tiltekið í kringum 1760, í tilefni af því að lungnaveiki og kláði höfðu herjað á sauðfjárstofn Íslendinga og minnkaði stofninn verulega á þessum árum. Því töldu menn að hagkvæmt væri að reyna búskap með hreindýr, sem eru sterk dýr og þola óblíða veðráttu vel. Þess vegna var ráðist í að flytja hingað inn hreindýr, en reyndar varð raunin sú að þau nýttust ekki sem bústofn og hafa aldrei gert, heldur lifa þau villt hér á landi og eru veidd af veiðimönnum.

Sérstaðan er sú að þau eru fyrst og fremst á Austurlandi og ganga þar frjáls og villt og auðvitað setja þau mikinn svip á hina austfirsku náttúru. Landeigendur á Austurlandi hafa veiðiréttinn og fá arð af veiðum en eins og ég sagði áðan er staðan sú að með breytingunni sem gerð var árið 2003 var dregið úr vægi hreindýraráðs og hlutverk þess breyttist. Umfjöllun og stjórnsýsla varðandi hreindýr og veiðar er núna í höndum Umhverfisstofnunar. Við það eru bændur á Austurlandi ósáttir og telja að þekkingin og stjórnsýslan eigi að vera í þeirra höndum.

Það má líka færa rök fyrir því að boðleiðin frá landeigendum til ráðherra sé löng með þessu fyrirkomulagi og það mundi auka þjónustu og árangur á málefnasviðinu að færa stjórnsýsluna aftur til hreindýraráðs, sem er fyrst og fremst ráðgefandi í dag, sérstaklega með hliðsjón af hagkvæmni og nýtingu fagþekkingarinnar.

Það er því tillaga mín að unnið verði að því að hefja undirbúning að flutningi stjórnsýslu um málefni hreindýraráðs aftur í hendur Austfirðinga.