144. löggjafarþing — 29. fundur,  6. nóv. 2014.

mál stjórnarformanns Fjármálaeftirlitsins.

[10:33]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Stjórn Fjármálaeftirlitsins er engin venjuleg stjórn. Hún hefur ekki bara eftirlit heldur tekur hún mikilvægar ákvarðanir gagnvart viðskiptabönkunum. Bankahrunið og skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis leggur sérstakar skyldur á herðar fjármálaráðherra við að gæta vel að við skipan á formanni stjórnar Fjármálaeftirlitsins og skyldur á okkur hér á Alþingi um að hafa sterkt eftirlit með Fjármálaeftirlitinu og stjórn þess.

Það er því vægast sagt óheppilegur allur sá fjölmiðlaflutningur og fréttaflutningur af hlutum sem tengjast stjórnarformanni þeim sem fjármálaráðherra skipaði í forustu fyrir Fjármálaeftirlitið. Þar er fjallað um viðskiptasnúninga sem skila hátt í milljarðs hagnaði, tölur sem maður út af fyrir sig ekki skilur, ýmis vafi settur fram um upplýsingagjöf þess sem hér á í hlut, fréttir um vanhöld á því að skila ársreikningum sem skylt er að lögum, en alvarlegast af öllu er — því að á hið fyrrnefnda getur maður illa lagt mat — að fram hafi komið kæra til Fjármálaeftirlitsins um hlutaðeigandi einstakling áður en fjármálaráðherra skipaði hann í stjórn Fjármálaeftirlitsins og að sú kæra hafi síðan verið látin niður falla.

Það er því nauðsynlegt að spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvort honum hafi verið kunnugt um það að sá sem hann skipaði til þessa verks hafi áður sætt kæru til Fjármálaeftirlitsins, hvort fjármálaráðherra hafi kynnt sér efni hennar og ástæður þess að kæran var dregin til baka eða látin niður falla og hvort heldur var, einnig hvort honum hafi verið kunnugt um fjárhagslega hagsmuni og viðskiptatengsl þess sem hann skipaði með þessum hætti. Ef ekki, hvort hann hafi eftir að þessi umfjöllun hófst fengið þær upplýsingar hjá stjórnarformanni Fjármálaeftirlitsins og gengið úr skugga um það að sá sem þessu embætti gegnir fari í einu og öllu að lögum og reglum og að hæfi hans til að gegna starfinu sé yfir vafa hafið.