144. löggjafarþing — 29. fundur,  6. nóv. 2014.

mál stjórnarformanns Fjármálaeftirlitsins.

[10:37]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Hér er ekki þyrlað upp reyk og ryki heldur þvert á móti hæstv. fjármálaráðherra gefið tækifæri til þess að hreinsa andrúmsloftið á þinginu gagnvart þeirri fjölmiðlaumfjöllun sem verið hefur. Það er gott að heyra að hæstv. fjármálaráðherra var kunnugt um þessa kæru en óheppilegt að honum hafi ekki verið kunnugt um og hann upplýstur um það áður en hann skipaði viðkomandi til starfa. Ég treysti því að gengið hafi verið úr skugga um það að ekki hafi verið efnisrök í kærunni.

Ég hlýt að spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvort hann telji, í ljósi þess sem á eftir hefur farið, að það hafi verið mistök að skipa formann stjórnar Fjármálaeftirlitsins með þeim hætti sem gert var og hvort það sé fullnægjandi að sá sem gegnir því sitji út árið. Og ég spyr jafnframt hvort fjármálaráðherrann hafi kynnt sér það sem fram hefur komið um skil á ársreikningum og hvort ekki sé nauðsynlegt að fá það mál líka á hreint og út úr opinberri umræðu. Því að við erum greinilega (Forseti hringir.) sammála um það að afar óheppilegt er að þessi umfjöllun sé með þeim hætti (Forseti hringir.) sem verið hefur.