144. löggjafarþing — 29. fundur,  6. nóv. 2014.

starfsemi Aflsins og fleiri samtaka.

[10:45]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Herra forseti. Ég þakka enn á ný fyrir spurninguna. Það er gott að finna að þingmaðurinn hefur áhuga á þessu.

Við höfum einmitt falið Barnaverndarstofu að koma með tillögu til okkar um hvernig við getum tryggt að sú þjónusta sem Barnaverndarstofa hefur verið að byggja upp sem lykilúrræði, svokallað MST, verði í boði á öllu landinu. Nú er starfar MST-teymi aðeins í 100 kílómetra radíus frá höfuðborginni og ég tel að sé algerlega óásættanlegt að við bjóðum ekki upp á sambærilega þjónustu alls staðar. Hins vegar hafa komið fram ábendingar um að hugsanlega þurfi að skoða aðrar leiðir sem snúa að þeim börnum sem búa við mestan vanda og það er þáttur sem ég hef lagt áherslu á að verði skoðaður sérstaklega.

Ég vil líka taka fram að það er engin vinna í gangi á mínum vegum um að flytja Barnaverndarstofu til Akureyrar. Hins vegar er nefnd starfandi sem á að koma með tillögur um nýja stjórnsýslustofnun sem mun þá hugsanlega sinna hluta af þeim verkefnum sem Barnaverndarstofa fer með núna. (Forseti hringir.) Ég vil að lokum benda á hversu mikilvæg sveitarfélögin eru í því sambandi því að þau bera ábyrgð á barnaverndarstarfi.