144. löggjafarþing — 29. fundur,  6. nóv. 2014.

tekjuskattur o.fl.

356. mál
[12:08]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég skal ekkert vera að þráspyrja hæstv. ráðherra um þetta, þetta er tæknilegt atriði og við förum sjálfsagt eitthvað yfir það í vinnu í efnahags- og viðskiptanefnd. En veruleikinn er engu að síður þarna til staðar og ég held að ekki leiki vafi á því að mikil framför var fólgin í því að taka upp sómasamlegar milliverðlagningarreglur hér, og víðar í löggjöf hefur verið reynt að stoppa í göt sem áður voru og gátu þýtt annarleg viðskipti eða á óeðlilegu verði. Nærtækt er að vísa þar líka til viðskipta með hlutabréf, þegar mönnum, fyrirtækjum, lögaðilum, er heimilað að kaupa sín eigin bréf, að það sé ekki gert á óeðlilegu verði og tekið mið af markaðsverði o.s.frv. Hér er um tiltölulega tengt mál að ræða. Það er alveg augljóst af textanum að menn gera sér grein fyrir því að áfram getur sú hætta verið til staðar að það séu færðir til fjármunir í viðskiptum milli lögaðila sem eru sjálfstæðir lögaðilar, en vegna einhverra hagsmunatengsla sem á bak við liggja séu þau ekki á eðlilegum forsendum. Þess vegna eru menn greinilega ekki alveg búnir að leysa málið eða róa fyrir hverja vík með því einu að fella skilgreininguna á brott, erfið sem hún kann að vera í framkvæmd, ég get vel skilið það. En ég vísa til þess eins og þarna segir, að verðlagning í viðskiptum aðila sem hefðu getað fallið undir ákvæðið, eins og stendur núna í lögum, skuli samt vera í samræmi við armslengdarsjónarmið. Áfram eru menn að vandræðast með þetta. Ég held að þá verði að skoða vel hvort leiðin sé sú að fella ákvæðið brott eða skýra það, gera það skýrt og afdráttarlaust, eða fara þá leið sem frumvarpið leggur til.