144. löggjafarþing — 29. fundur,  6. nóv. 2014.

hafnalög.

5. mál
[12:20]
Horfa

Frsm. um.- og samgn. (Haraldur Einarsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á hafnalögum, með síðari breytingum.

Þetta er svipað mál og það sem ég mælti fyrir hér áðan. Það náði ekki fram að ganga á síðasta þingi og fór til ráðuneytisins milli þinga og þar voru gerðar breytingar í samræmi við nefndarálitið.

Málið var fyrst flutt á 141. löggjafarþingi og svo aftur á því 143. Nefndin fjallaði þá um málið og afgreiddi það með breytingartillögunni sem má sjá í fylgiskjali þessu. Þar má helst nefna að þar voru prósentutölur hækkaðar og komið til móts við þær kröfur sem umsagnaraðilar höfðu fram að færa en síðan var einnig reifað um neyðarhöfn eða skipaafdrep.

Málið hlaut þó ekki endanlega afgreiðslu 2014 og er því endurflutt nú með nokkrum tæknilegum breytingum sem raktar eru í 5. lið athugasemda við frumvarpið.

Við umfjöllun nefndarinnar komu fram sömu athugasemdir við framkvæmd 17. gr. laganna hvað varðar starfsemi fiskeldisfyrirtækja og komu fram fyrir nefndinni á síðasta þingi. Fiskeldisfyrirtæki greiða aflagjald samkvæmt e-lið 2. mgr. 17. gr. laganna af framleiddum eldisfiski sem fluttur er úr kví um hafnarsvæði í sláturhús í landi. Aflagjaldið reiknast af helmingi heildarsöluverðmætis aflans eða á sama grundvelli og reiknað er aflagjald frystiskipa. Athugasemdirnar snúa að því að aðilar telja að ekki sé um sjávarafla að ræða heldur fiskeldishráefni, enda sjá fyrirtækin sjálf um að koma fiskinum í kvíar þar sem hann er fóðraður og vex þar til hann er fluttur aftur að landi til slátrunar. Þá er verðmæti vörunnar ekki skýrt enda um vöru á mismunandi framleiðslustigi að ræða sem fær endanlegt verðmæti við sölu afurðar eftir slátrun, pökkun og útflutning til kaupenda. Af þessum sökum hafa komið fram þau sjónarmið að réttara sé að fiskeldisfyrirtæki greiði magntengt vörugjald í stað aflagjalds. Nefndin tekur undir þau meginsjónarmið sem búa að baki framangreindum athugasemdum. Fiskeldisfyrirtæki sem önnur fyrirtæki þurfa að greiða eðlilegt gjald fyrir afnot af höfnum landsins og það gjald þarf að finna út með eðlilegum og sanngjörnum hætti. Að mati nefndarinnar er eðlilegt að skoðað verði nánar hvaða leiðir eru færar til þess að reikna út það gjald sem fiskeldisfyrirtæki greiða fyrir afnot af hafnarmannvirkjum. Nefndin bendir þó á að samkvæmt 5. mgr. 17. gr. hafnalaga er höfn heimilt að gera langtímasamning við notendur hafnarmannvirkja, meðal annars um aflagjald vegna afnota af bryggjum, með endurskoðunarákvæðum ef forsendur breytast. Á þann hátt geta aðilar samið um greiðslu gjalda fyrir afnot af hafnarmannvirkjum á þann hátt sem tekur með betri hætti mið af þeirri starfsemi sem stunduð er.

Að framansögðum athugasemdum virtum leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Undir nefndarálitið rita Höskuldur Þórhallsson, formaður, Katrín Júlíusdóttir, Haraldur Einarsson, Helgi Hrafn Gunnarsson, með fyrirvara, Svandís Svavarsdóttir, Róbert Marshall og Vilhjálmur Árnason.

Birgir Ármannsson og Elín Hirst voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.