144. löggjafarþing — 29. fundur,  6. nóv. 2014.

hafnalög.

5. mál
[12:25]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á hafnalögum, með síðari breytingum (ríkisstyrkir o.fl.). Eins og komið hefur fram hjá framsögumanni var þetta eitt af þeim málum sem náðu ekki í gegn í vor og ég mjög brýnt að málið fáist samþykkt. Í raun er þarna að nokkru leyti verið að snúa af ákveðinni einkavæðingarbraut sem menn voru að gæla við á árum áður.

Í 2. gr. frumvarpsins segir, með leyfi forseta:

„Íslenska ríkinu er heimilt að eiga og reka nauðsynleg mannvirki vegna ferja. Þar sem mannvirki vegna ferja tengist annarri hafnarstarfsemi getur ríkið gert samkomulag við eiganda viðkomandi hafnar um uppbyggingu og rekstur.“

Þetta tel ég vera mjög gott og einnig það að allar hafnarframkvæmdir sem njóta greiðsluþátttöku úr ríkissjóði skuli vera á svæðum sem eru í eigu hafnar eða sveitarfélaga og hafnarmannvirki sem hlotið hafa styrk úr ríkissjóði skuli vera opin almennri skipaumferð eftir því sem nánar er kveðið á um í lögum, hafnarreglugerð viðkomandi hafnar og öðrum reglum sem um aðgengi að höfnum gilda.

Í frumvarpinu kemur líka fram, sem ég tel vera til bóta fyrir minni hafnir, að heimilt er að veita viðbótarframlag úr ríkissjóði til lítilla hafnarsjóða innan skilgreinds byggðakorts, samkvæmt ákvörðun Eftirlitsstofnunar EFTA, hafna með tekjur undir 40 millj. kr. og þar sem verðmæti meðalafla síðustu ára er undir 1.000 millj. kr. Viðbótarframlagið getur orðið allt að 15%. Þó má heildarframlag ríkissjóðs aldrei vera meira en 90%.

Hér er komið inn á að skilyrði fyrir úthlutun styrkja úr ríkissjóði til framkvæmda sé að um sé að ræða framkvæmd sem hafi mikla þýðingu fyrir almannahagsmuni á viðkomandi stað og að viðkomandi höfn hafi skilað jákvæðum rekstrarafgangi að teknu tilliti til vaxta eða hafi nýtt kosti sína til tekjuöflunar með eðlilegum hætti og að framlag ríkissjóðs raski ekki ótilhlýðilega samkeppni milli hafna samkvæmt ákvæðum samningsins um Evrópska efnahagssvæðið.

Allt er þetta gott og blessað og til bóta, að ég tel. Með frumvarpinu eru vissulega lagðar til ýmsar breytingar á hafnalögum sem beðið hefur verið eftir og flestar þeirra til að bregðast við fjárhagsvanda sem snýr að höfnum landsins. Í frumvarpinu er að finna ákvæði um skipaafdrep og heimild fyrir ríkið til að eiga og reka mannvirki vegna ferja.

Meginþættir frumvarpsins eru:

Í fyrsta lagi að lögfest verði að íslenska ríkið geti verið eigandi hafnar, eins og ég kom inn á hér áðan, en ekki er gert ráð fyrir því í núgildandi hafnalögum. Því voru sett sérlög um uppbyggingu Landeyjahafnar og eignarhald ríkisins á því mannvirki. Eignarhald ríkisins skal, samkvæmt frumvarpinu, takmarkast við hafnir sem sinna eingöngu samgöngum milli tveggja eða fleiri áfangastaða.

Í öðru lagi er gert ráð fyrir að eigendur hafna geti gert með sér samning um samrekstur einstakra þátta í starfsemi sinni í stað þess að samstarfið taki til starfseminnar í heild. Ég tel það líka vera mikið framfaraskref og gott.

Í þriðja lagi er lagt til að lögfest verði viðmið um þá hagsmuni og sjónarmið sem leggja ber til grundvallar við tillögugerð og forgangsröðun framkvæmda í samgönguáætlun.

Í fjórða lagi er lagt til að ákvæðum hafnalaga um ríkisstyrktar framkvæmdir verði breytt á þann hátt að styrkhæfum framkvæmdum verði skipt upp í fimm meginflokka og skilyrðin verði þau að um framkvæmd sé að ræða sem hafi mikla þýðingu fyrir almannahagsmuni á viðkomandi stað, eins og ég nefndi hér áðan, viðkomandi höfn þurfi að skila jákvæðum rekstrarafgangi að teknu tilliti til vaxta, hafi nýtt kosti til tekjuöflunar með eðlilegum hætti og framlag ríkissjóðs raski ekki samkeppni milli hafna, samkvæmt ákvæðum samningsins um Evrópska efnahagssvæðið.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að þau styrkhlutföll sem heimilt er að veita úr ríkissjóði fyrir framkvæmdum á sviði hafnargerðar verði aukin frá því sem nú er en þó er kveðið á um að heildarframlag ríkissjóðs geti aldrei orðið meira en 90% af framkvæmdakostnaði.

Verði frumvarpið að lögum mun það rýmka heimildir ríkissjóðs til að styrkja einstök verkefni í uppbyggingu og endurnýjun hafna og til sameiningar á hafnarsjóðum. Á hinn bóginn má gera ráð fyrir að með frumvarpinu verði hafnarsjóðum, sem eru í dag vissulega margir og flestir smáir, gert kleift að standa betur undir rekstri og nauðsynlegum fjárfestingum með samvinnu og samstarfi.

Eins og fram hefur komið hafa verið gerðar breytingar á þessu máli frá því í vor og hér eru breytingartillögur kynntar. Það hefur líka komið fram að umsagnaraðilar eru almennt hlynntir þessu frumvarpi og að sett var á fót nefnd með fulltrúum frá Hafnasambandi Íslands sem endurskoðar núgildandi hafnalög. Hún lagði til að í frumvarpinu yrði styrkhlutfall til endurbóta 90% og nýframkvæmda 60% og í umsögnum hefur komið fram að hafnir hafa yfirleitt ekki bolmagn til að standa undir meiru en 10% af framkvæmdakostnaði við endurbætur og enduruppbyggingu.

Nefndin styður framangreinda tillögu að nokkru leyti og leggur fram álit og breytingartillögu þess efnis sem hér er kynnt. En það er líka ljóst að setja þarf skýrar reglur um þau skilyrði sem hafnir þurfa að uppfylla til þess að njóta framlags ríkisins til endurbóta og nýframkvæmda. Mér finnst kannski í þessu samhengi, af því að þarna er verið að tala um að möguleikar séu á að fá meiri styrki, að gera þurfi ráð fyrir því á fjárlögum ríkisins. Í því sambandi vil ég vekja athygli á því að í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2015 er eingöngu gert ráð fyrir 107,4 millj. kr. í Hafnabótasjóði, sem er bara brandari.

Í kjördæmaviku hjá okkur þingmönnum var nefnt sem dæmi að í hafnarframkvæmdum sem sveitarfélagið Skagaströnd er að leggja út í sé verið að tala um framkvæmdir upp á 150 milljónir. Af því má sjá að þeir fjármunir sem áætlaðir eru í Hafnabótasjóði eru ekki upp í nös á ketti, svo að maður segi það nú bara á íslensku. Þessi Hafnabótasjóður þyrfti að lágmarki að vera fimm til sex sinnum hærri en hann er í dag ef eitthvert gagn á að vera að honum og svona góðar breytingartillögur um hærra styrkhlutfall sem koma fram í þessu frumvarpi eiga að virka.

Mér finnst líka gott að nefndin hefur tekið til skoðunar athugasemdir sem fram hafa komið. Athygli nefndarinnar hefur verið vakin á að í gjaldskrá nokkurra hafna á Vestfjörðum er fiskeldisfyrirtækjum gert að greiða aflagjöld af framleiddum eldisfiski sem fluttur er úr kví um hafnarsvæði til sláturhúss í landi. Það kom fram að það er mat ýmissa að viðkomandi hráefni sé fiskeldishráefni en ekki sjávarafli og verðmætið því óskýrt enda er um vöru í vinnslu að ræða eða vöru á mismunandi framleiðslustigi sem fær endanlegt verðmæti við sölu afurða eftir slátrun og pökkun.

Hér kemur fram að umsagnaraðilar töldu réttara að fiskeldisfyrirtæki greiði í stað aflagjalds magntengt vörugjald af eldisfiski í vinnslu. Með slíkri breytingu væri þjónustugjaldið magntengt en byggðist ekki á huglægu mati. Ég get tekið heils hugar undir þetta og sé að nefndin gerir það og telur að skoða eigi þetta atriði betur þó að hún leggi ekki til breytingar á því að svo stöddu eins og ég skil málið.

Annars vil ég bara lýsa ánægju yfir því að þetta mál skuli komið aftur fram og þetta langt. Ég vonast eftir því að það fái góða meðferð og verði afgreitt sem fyrst sem lög frá Alþingi.