145. löggjafarþing — 29. fundur,  4. nóv. 2015.

um fundarstjórn.

[21:20]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég held að við séum alveg sammála um það að við getum skipulagt hlutina betur á hv. Alþingi en það þurfa fleiri en bara stjórnarliðar að koma að því borði. Nú liggur fyrir að við erum komin með samkomulag um að fara í þetta mál. Við vitum það öll hér inni að það er mikilvægt að koma málinu til hv. fjárlaganefndar þannig að við getum farið vel yfir það.

Ég ætla ekki að rifja upp nema kannski örlítið hvernig þetta var á síðasta kjörtímabili. (Gripið fram í: Gerðu það, gerðu það.) Ókei, út af fjölda áskorana frá hv. stjórnarandstöðu þá er hægt að fara yfir það að vökulögin sem voru samþykkt 1921 sem tryggðu sex tíma hvíld sjómanna voru margoft brotin undir forustu hv. stjórnarandstöðu, þannig að ég treysti því að við gerum það ekki núna en ég held að við eigum að byrja á þessu.