149. löggjafarþing — 29. fundur,  8. nóv. 2018.

innleiðing þriðja orkupakka ESB.

[10:38]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Það er áhugavert að hlusta á hv. þingmann segja að nú séum við komin í aðstöðu til að gera sem mest. Eins og ég nefndi áðan hefur þetta mál verið inni í kerfinu í fjöldamörg ár. Ég kom inn í ráðuneytið í upphafi árs 2017 og mjög margir, m.a. hv. þingmaður, hefðu getað haft ýmislegt um málið að segja á fyrri stigum en gerðu ekkert í því að reyna að koma fleiri undanþágum að en við gerðum á sínum tíma.

Það er líka þannig, og ég held að það þekki allir í þessum þingsal, að þegar menn ætla að hafa eitthvað um það að segja hvað er innleitt hér, þegar við fáum tilskipanir og reglugerðir, er það einmitt á fyrstu stigum máls sem það er gert. Hvernig hefur þeim málum verið háttað undanfarin ár? Við erum núna fyrst að setja fjármuni í að tryggja hagsmuni okkar þannig að við séum með betri hagsmunagæslu úti en verið hefur. Það hefur ekki verið undanfarin ár með þeim hætti sem best hefði verið. En nú er það hér.

Þegar hv. þingmaður talar um skynsemi er það akkúrat mitt leiðarljós í þessu máli. Þess vegna erum við líka að skoða það og þess vegna ætla ég ekki að standa upp hér og (Forseti hringir.) taka undir allt sem hv. þingmaður er að segja og fallast á það sem hann beinir til mín.