149. löggjafarþing — 29. fundur,  8. nóv. 2018.

skattleysi uppbóta á lífeyri.

[10:39]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (Flf):

Herra forseti. Hinn 12. júní sl. var samþykkt þingsályktunartillaga þess efnis að fela fjármála- og efnahagsráðherra að leggja fram, eigi síðar en 1. nóvember 2018, frumvarp til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt, sem tryggi skattleysi uppbóta á lífeyri. Tillagan er reist á því sjónarmiði að óeðlilegt sé að einstaklingar séu skattlagðir vegna greiðslna sem ætlað er að standa undir kostnaði þeirra vegna örorku, hreyfihömlunar eða sjúkdóma. Tillagan var flutt af þingmönnum allra stjórnmálaflokka sem sæti eiga á Alþingi, þar á meðal öllum þingmönnum Flokks fólksins sem beittu sér sérstaklega í málinu. Tillagan var samþykkt með 56 samhljóða atkvæðum. Þingviljinn í þessu máli gæti ekki verið skýrari.

Svo bar við í haust að málið birtist ekki á þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar. Af því tilefni beindi ég 27. september sl. óundirbúinni fyrirspurn til ráðherra um stöðu málsins. Hæstv. ráðherra, sagðist geta svarað því til að unnið væri að undirbúningi málsins og vænti þess að það yrði eins og um var beðið, eins og hann tók til orða, tilbúið í októbermánuði og gæti þá komið fram fyrir 1. nóvember. Bætti ráðherra við að sér fyndist markmiðið með málinu mjög göfugt og gott.

Þau orð ber vitaskuld að þakka en nú er komið fram í nóvember án þess að bóli á frumvarpinu. Spyr ég því hæstv. ráðherra: Af hverju er frumvarpið ekki komið fram? Hvar er málið statt? Hvenær má Alþingi vænta þess að þetta frumvarp verði lagt fram?