149. löggjafarþing — 29. fundur,  8. nóv. 2018.

kirkjujarðasamkomulag.

[10:53]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Það er eitt megininntak samninga við kirkjuna á þessu stigi að auka frjálsræði kirkjunnar um ráðstöfun þeirra fjármuna sem samningarnir á sínum tíma kveða á um. Í því felst t.d. að það er vilji ríkisins að frekar verði samið um eina heildarfjárhæð sem kirkjan hafi meira sjálfdæmi um hvernig verði ráðstafað til að sinna þeim verkefnum sem kirkjan telur mikilvægust, í stað þess að vera með alla þessa flokka af greiðslum sem við þekkjum samkvæmt því fyrirkomulagi sem gilt hefur. Í þessu tel ég felast aukinn fjárhagslegan aðskilnað á milli rekstrar kirkjunnar og ríkisins.

Það er síðan eitthvað sem leiðir af samningunum sem gerðir voru á sínum tíma hverjar skuldbindingar ríkið hefur nú þegar undirgengist. Ég er nú þannig gerður að ég tel mikilvægt að ríkið standi við samninga sem það hefur gert fyrir sitt leyti. Ef í spurningu þingmannsins felst fyrirspurn um hvort við getum sagt upp samningnum og óskað eftir einhverri allt annarri niðurstöðu, held ég að það sé dálítið langsótt. En ef vilji beggja aðila stendur til þess að endurskoða frá grunni fyrirkomulag fyrir framtíðina er í sjálfu sér ekkert því til fyrirstöðu.

En þetta er það sem um var samið. Það komu jarðir til ríkisins og á móti tók ríkið að sér að standa undir ákveðnum greiðslum sem kirkjan nýtir til að rækja sína starfsemi. Samningarnir að þessu sinni snúast um að auka fjárhagslegan aðskilnað, að skilja frekar á milli þeirra skuldbindinga sem ríkið hefur gagnvart kirkjunni og þess hvað ríkið gerir við þá fjármuni.