149. löggjafarþing — 29. fundur,  8. nóv. 2018.

opinberar framkvæmdir og fjárfestingar.

[11:03]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Ég get ekki annað en glaðst yfir því að málið sé a.m.k. á borði ráðherrans þótt ég sé ekki alveg jafn ánægður með að það taki þó þennan tíma og enn sjái ekki fyrir endann á því.

Mig langar þá að spyrja til viðbótar hvort hæstv. fjármálaráðherra geri ráð fyrir því að veita fjármuni sérstaklega til þeirra verkefna. Það er mikilvægt að það séu fjármunir fyrir hendi til að sinna því og það eru smáaurar miðað við ávinninginn.

Ég vildi aðeins koma inn á að mér fannst viss uppgjöf í máli hæstv. ráðherra, að það væri eiginlega óhjákvæmilegt að svona færi og menn könnuðust við það. Sem betur fer eru til aðferðir til að draga úr slíkri áhættu. Menn hafa víða náð mjög góðum árangri einmitt með það markmið að draga úr áhættunni, kortleggja mun betur.

Síðan er það sem er alvarlegast, og ráðherra kom réttilega inn á, (Forseti hringir.) að menn leggja af stað með lokuð augu, tryggja sér visst fjármagn, koma sér á þann stað að klára verður verkefnið, sem verður, og allir vita það, miklu dýrara. Það verðum við að koma í veg fyrir þannig að menn hafi það á hreinu frá upphafi, með opin augun, (Forseti hringir.) að öll verkefni hins opinbera fara 100% fram úr áætlun. (Forseti hringir.) Þá vita menn það bara.