149. löggjafarþing — 29. fundur,  8. nóv. 2018.

drengir í vanda.

[11:20]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Við þurfum að hugsa betur um börnin okkar og bæta aðstæður allra barna sem búa við einhvers konar skort, hvort sem hann er efnislegur eða félagslegur.

Í umræðunni um stöðu barna og greiningu eftir kynjum er mikilvægt að hafa góð gögn til að undirbúa aðgerðir. Rannsóknir og greining hefur kannað líðan og lifnaðarhætti unglinga í 8. til 10. bekk í rúm 20 ár og þar höfum við góðan samanburð á milli ára. Rannsóknir hafa einnig verið gerðar á líðan ungmenna sem ekki stunda nám á framhaldsskólastigi. Niðurstöður sýna að stúlkum gengur betur í skóla en strákum en þeim líður umtalsvert verr. Ungmennum á aldrinum 16–20 ára sem eru utan framhaldsskóla líður verr en hinum sem eru í námi.

Í skýrslu landlæknisembættisins um sjálfsvígshugsanir og sjálfsvígstilraunir meðal íslenskra ungmenna frá því í september síðastliðnum kemur fram að fleiri ungmenni sögðust í alvöru hafa hugleitt sjálfsvíg árið 2016 en árin á undan, eða 33% stelpna og 23% stráka árið 2016 samanborið við 27% stelpna og 23% stráka á árinu 2000. Fleiri stúlkur en strákar höfðu gert sjálfsvígstilraunir. Þetta eru sláandi tölur.

Styttra nám, sem lýkur á framhaldsskólastigi, höfðar frekar til stráka en stelpna. Þetta er hluti af því kynjakerfi sem við höfum byggt upp og þurfum að ráðast að. Strákar fara í hefðbundnu karlastörfin, svo sem iðnaðarstörf, en konur í hefðbundin kvennastörf, eins og hjúkrun og kennslu, sem kennt er til á háskólastigi.

Karlar beita ofbeldi í meira mæli en konur. Þeir fremja frekar afbrot og eru líklegri til að falla fyrir eigin hendi. Þetta eru ekki ný sannindi og byggja á úreltu, gamaldags kynjakerfi sem er vont fyrir konur en líka fyrir karla.

Við þurfum að huga betur að börnunum okkar og þar er jafnrétti lykilhugtak.