149. löggjafarþing — 29. fundur,  8. nóv. 2018.

drengir í vanda.

[11:29]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég álít þetta vera hluta af femínískri umræðu, nánar tiltekið hluta af því hvað í umhverfi okkar mismunar fólki og dæmir það til tiltekinna hlutverka á grundvelli kyns án tillits til vilja einstaklingsins sjálfs. Ég hef því miður ekki tíma til að fara yfir öll atriðin sem hv. þingmaður nefndi í framsögu sinni. Þau voru allmörg og margt má eflaust ræða áfram. Ég ætla samt að nefna það sem ég kem að.

Hv. þingmaður nefndi tímaleysi foreldra sem einn möguleika. Ég held ekki að það sé ástæðan vegna þess að það myndi væntanlega bitna jafnmikið á stúlkum, tel ég. Hv. þingmaður nefndi einnig mikla tölvunotkun og tölvuleiki. Ég held að það geti vel verið hluti af skýringunni. Í því sambandi er mjög mikilvægt að við áttum okkur á því að tölvuleikur og tölvuleikur eru ekki það sama. Það eru til tölvuleikir sem eru „pjúra“ afþreying og gera ekkert gagn og draga athygli krakka frá umheiminum. Það eru líka til tölvuleikir sem fræða og mennta.

Ég ætla bara að auglýsa hér í leiðinni „Kerbal Space Program“, sem kennir fólki ýmislegt í geimvísindum, og mér er fúlasta alvara. Það er kennsluefni og tölvuleikur og hægt er að nýta tæknina til að þroska og hjálpa fólki að fást við lífið eða framtíðina hvernig sem það vill hafa hana. Mér finnst mikilvægt að nefna það.

Við erum að ganga í gegnum ýmsar samfélagslegar breytingar, sennilega að miklu leyti vegna tækniframfara og þar á meðal eru breytingar á viðhorfum til kynjahlutverka og kynlífs, sem var annað sem hv. þingmaður nefndi. Ég tel að þar sé margt sem megi skoða. En ég vil þó halda því til haga að ég tel ekki að kynvitund eða viðhorf til kynlífs hafi verið betra áður, samanber #metoo-byltinguna sem afhjúpaði það að gömlu viðhorfin til kynlífs og kynhegðunar voru vond og eru vond. Við eigum að líta fram á nýja tíma í þeim efnum og þurfum að hafa opnari umræðu.

Það verður ekki hjá því komist að nefna að klám er líka aðgengilegra nokkru fyrr. Það kallar á markvissari fræðslu og krefst einnig að fræðarinn sjálfur sé nógu upplýstur til að fanga viðfangsefnið í takt við skilning ungu kynslóðarinnar. Það er almennt erfitt en það er mögulegt. En eins og venjulega var ekki nægur tími til að tæma umræðuna. En ég þakka fyrir þessa mikilvægu umræðu.