149. löggjafarþing — 29. fundur,  8. nóv. 2018.

drengir í vanda.

[11:47]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á að taka undir það sem hér var sagt um að taka verði samanburð í tíma og rúmi. Við getum ekki bara hent fram tölfræði og haft rosalegar áhyggjur, við þurfum að skilja hvað tölfræðin þýðir. Það á við um þessa tölfræði eins og alla tölfræði.

Ég vil líka taka undir það að það er ekkert nýtt, og á ekki að koma neinum á óvart, að drengir sýni almennt meiri áhættuhegðun en stúlkur. Það er frekar augljóst sama hvar maður lítur yfir samfélagið. Nákvæmlega hvers vegna veit ég ekki — ég er með mínar tilgátur — en það er samt sem áður þannig. Ég vil sömuleiðis sérstaklega taka undir þau orð sem féllu hér áðan að við þurfum að huga að breyttri ímynd karlmennskunnar. Það er ekki lengur stóri og sterki karlinn sem getur verið föðurímyndin. Það getur ekki verið þannig lengur ef við ætlum að búa í betra samfélagi og ég legg til að við gerum það.

Ég verð að svara því sem hv. þm. Brynjar Níelsson fór út í hér áðan. Mér finnst það endurspegla umræðu sem varðar ákveðin grundvallaratriði, sem eru jafnrétti og femínismi, eins og ég skil hann alla vega. Hv. þingmaður nefndi ákveðna rétthugsun, eins og hann kallaði það, að enginn munur væri á kynjunum. Það gleður mig að upplýsa hv. þingmann um að sú hugmynd að munur sé á fólki eftir kynjum er velkomin í femínisma, alla vega þann femínisma sem ég aðhyllist. Það er ekkert guðlast að segja það í femínismanum. En hv. þingmaður nefndi það sem mér finnst merkilegt, hann segir að allir séu settir í sama boxið. Ég skil hvaðan hv. þingmaður kemur, ég skil viðhorfið. Það væri slæmt ef svo væri. En ég sé það öðruvísi. Fyrir mér snýst þetta um að við eigum að setja hvert og eitt okkar í það box sem hvert og eitt okkar vill vera í, ef setja á fólk í box yfir höfuð.

Það sem er lykilatriðið er að umhverfið sem við lifum í á að henta öllu fólki, án tillits til kyns. Það er þess vegna sem mér finnst áhugavert ef kynjahalli er í námi. Það er ekki sjálfkrafa vandamál að karlar séu í minni hluta í námi ef útskýringin er sú að fleiri konur sæki nám. En það er kannski áhugaverð spurning samt sem áður hvað það er (Forseti hringir.) í umhverfi okkar sem höfðar á ólíkan hátt til ólíks fólks. Það er mikilvæg spurning. Hún dregur okkur nær því að komast einn daginn að samfélagi þar sem við erum öll jöfn, óháð kyni og öllu öðru.