149. löggjafarþing — 29. fundur,  8. nóv. 2018.

drengir í vanda.

[11:50]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Frú forseti. Þetta er áhugaverð umræða, ég held að mennska hljóti að vera það sem við eigum að stefna að. Síðan er til karlmennska og síðan er til nokkuð sem gæti heitið kvenska en það er að hafa kvenlega eiginleika. Ég held að sú flokkunarárátta okkar að vilja hafa alla í sínu boxi sé röng. Ég held að hún leiði ekki gott af sér. Ég held að við eigum frekar að líta á karla, konur og hvers kyns fólk sem perlur á bandi. Sumir eru rosalega mikið á öðrum enda þess perlubands og aðrir á hinum þannig að það að tala um drengi eða stúlkur sem sinn hvorn hlutinn, fullkomlega aðskilda, er rangt og það skilar okkur ekki árangri.

Ég held að í skólakerfi og svo sem alls staðar eigum við að horfa fyrst og fremst til fjölbreytileikans. Við eigum að heiðra fjölbreytileikann. Við eigum ekki að ala börn og ungmenni upp til einhvers sérstaks eða að þau eigi að uppfylla einhver tiltekin skilyrði og verða einhvern veginn að karli eða konu í sinni ýtrustu mynd. Ég held að það leiði ekki til góðs.

Síðan held ég að það sé líka umhugsunarefni með stúlkur, eða þær sem eru lengst til hægri á því að vera á talnabandinu stúlka, (Forseti hringir.) hvað þeim er kennt í skólum um dyggðir stúlkna í skólum. Er það ekki að sitja kyrrar? Er það ekki að þegja? Er það ekki að taka eftir og vera ekki með vandræði? (Forseti hringir.) Er það ekki vandamál líka?