149. löggjafarþing — 29. fundur,  8. nóv. 2018.

auðlindir og auðlindagjöld.

35. mál
[15:44]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Virðulegur forseti. Ég bið hæstv. forseta að afsaka að ég brá mér aðeins í annað herbergi. Ég hafði ekki gert ráð fyrir því hversu mikil samstaða væri meðal manna um þetta mál og taldi að ekki myndi ekki taka langan tíma að svara fyrir það. Ég sé ástæðu til að fagna þeirri umræðu sem farið hefur fram um málið og þeirri jákvæðni sem það hefur mætt í umræðunni, m.a. frá síðasta ræðumanni sem kom með ýmsa mjög góða og „innsæisfulla“ punkta sem eðlilegt er að taka til skoðunar við áframhaldandi vinnslu málsins.

Eins og menn hafa nefnt eru á þessu máli ýmsar hliðar. Hægt er að nýta auðlindir landsins, sem vissulega eru mjög miklar, á hagkvæman hátt fyrir þjóðina, á ólíkan hátt. Uppleggið er ekki hvað síst að tryggja að gætt sé ákveðins jafnræðis því að nú er orðin ágætissamstaða um að sjávarútvegur greiði sérstaklega fyrir afnot af sjávarauðlindinni. Þá er eðlilegt að fylgja því eftir með því að leggja mat á af hvaða auðlindum ástæða er til þess að taka sérstakt gjald og hvernig því sé best háttað. Hvað varðar sjávarútveginn er þess virði að leiða hugann að því. Slík auðlind er ekki alls staðar nýtt á hagkvæman hátt. Raunar má segja að það sé algjör undantekning að fiskiauðlind sé nýtt á eins hagkvæman hátt fyrir samfélag og á Íslandi. Jafnvel í hinum svokölluðu samanburðarlöndum okkar er sjávarútvegur ríkisstyrktur. Þar fá skattgreiðendur ekki sérstakt gjald af nýtingu auðlindarinnar heldur leggja þeir til fjármagn svoleiðis að hægt sé að nýta hana. Það má meira að segja bara líta til Noregs; eins og það land er nú öflugt á sviði sjávarútvegs þá greiða skattgreiðendur með útgerðinni. Síðast þegar ég heyrði tölur af því — forseti verður að afsaka, það eru nokkur ár síðan, ekkert mjög mörg — skilst mér að greitt hafi verið sem nam 19.000 íslenskum krónum að jafnaði á þeim tíma með hverju lönduðu tonni.

Það er ekkert sjálfgefið að nýting þeirrar auðlindar frekar en annarra skili endilega beinum hagnaði og þurfi ekki fleira að koma til svo menn sjái sér hag í að nýta hana. Sem betur fer höfum við Íslendingar borið gæfu til að nýta þá auðlind á hagkvæman hátt og reyndar ýmsar aðrar líka. Það er rétt sem hv. þm. Ari Trausti Guðmundsson nefndi áðan, að ávinningurinn getur skilað sér með ýmsum hætti. Hv. þingmaður nefndi nýtingu á orku og lágt orkuverð á Íslandi. Það er ein leið til að skila ávinningnum af því að eiga þessa mikilvægu auðlind til almennings og þá kannski önnur leið en farin er að nokkru leyti í sjávarútvegi með sérstakri gjaldtöku þar. Það er ástæða til að taka það með í reikninginn þegar menn finna bestu aðferðirnar til að almenningur njóti sem mests ávinnings af þessum svokölluðu sameiginlegu auðlindum.

Þetta er líka mjög tímabær tillaga því að nú er verið að ræða um svokallaða auðlindaákvæði í tengslum við endurskoðun stjórnarskrár. Þar hefur komið á daginn í umræðunni, eins og menn hefðu kannski mátt gefa sér fyrir fram, að það er snúið viðfangsefni. Það er erfitt að skilgreina auðlindir og hvað þá að finna bestu leiðina til að nýta þær með hámarksávinningi. Reyndar held ég að ekki sé ofsögum sagt að ýmsum spurningum sé ósvarað í þeirri vinnu. Það frumvarp sem við ræðum hér getur vonandi nýst inn í vinnu við endurskoðun stjórnarskrár og þegar menn leggja mat á hvernig orðalagi verði best háttað í fyrrnefndu auðlindaákvæði. Ég tel að við séum að ræða þetta á hárréttum tíma. Það má líka setja það í samhengi við þau áform sem nú eru uppi um stofnun svokallaðs þjóðarsjóðs, eða auðlindasjóðs öðru nafni, þar sem gert er ráð fyrir að afrakstur af nýtingu auðlinda renni í sérstakan sjóð sem svo verði nýttur með tilteknum hætti.

Hv. þm. Ari Trausti Guðmundsson nefndi að hér væru nokkrar hugmyndir um hvernig nýta mætti slíkan sjóð. Hvað sjóðinn varðar og þær hugmyndir sem hafa verið nefndar um ráðstöfun hans, ekki í þessari umræðu heldur almennt af hálfu stjórnvalda, vil ég þó láta fylgja sögunni að það er álitamál hvort eðlilegt sé að leggja mikið fjármagn í sérstakan sjóð á meðan að ríkið er að greiða niður skuldir. Ef slíkur sjóður yrði ávaxtaður á miklu lægri vöxtum en þeir vextir sem skuldir bera sem ella væri hægt að greiða upp, er það ekki skynsamleg ráðstöfun af hálfu ríkisins. En þegar ríkið er orðið skuldlaust eða því sem næst er auðvitað æskilegt að eiga varasjóði sem hægt er að grípa til. En þá þurfa líka að gilda mjög skýrar reglur um hvernig farið er með slíkan sjóð þegar úthlutað er úr honum og mjög mikilvægt að mínu mati að þar gildi í meginatriðum sömu reglur og varðandi fjárlög að það sé verkefni þingsins að fást við þær úthlutanir.

Við höfum séð dæmi um að stjórnvöld hafi seilst í sjóði fram hjá þinginu. Þegar þeir hafa verið stofnaðir, jafnvel með ákveðið hlutverk í huga, hafi stjórnvöld freistast til að nýta fjármagn úr sjóðunum í aðra hluti. Ég nefni nýjasta dæmið; sjóð sem var í daglegu tali kallaður hamfarasjóður, stofnaður fyrir fáeinum árum síðan og átti að vera til þess að bregðast sérstaklega við hamförum, náttúruhamförum eða tjóni sem yrði af ófyrirsjáanlegum ástæðum, en svo tók núverandi ríkisstjórn allt í einu upp á því ekki svo löngu eftir að hún hafði látið samþykkja fjárlög, að seilast í þennan sjóð og taka úr honum ef ég man rétt 4 milljarða króna til að nota í vegabætur.

Það vildi svo til að það var rétt fyrir sveitarstjórnarkosningar, hvort sem það var algjör tilviljun eða ekki, en það var gert fram hjá þinginu. Ef við ætlum að fara að safna peningum sem samfélagið fær út á nýtingu auðlinda, í sjóði er mikilvægt að hafa þetta tvennt í huga, eða þrennt í rauninni: Í fyrsta lagi það sem ég ræddi í upphafi um að ná hámarksávinningi af nýtingu auðlindanna og þar geta ólíkar aðferðir átt við í hverju tilviki.

Í öðru lagi að það sé ekki óhagkvæmt með tilliti til skuldastöðu ríkisins. Í þriðja lagi að sá sjóður og úthlutanir úr honum verði á forræði löggjafans, á forræði Alþingis.

Að því sögðu þakka ég aftur fyrir þessa tillögu og góða umræðu um hana og heyri á umræðunni hér í dag að það er ástæða til að vera bjartsýnn á að það geti gengið ágætlega að fást við þetta stóra og flókna verkefni.