149. löggjafarþing — 29. fundur,  8. nóv. 2018.

réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

37. mál
[16:17]
Horfa

Flm. (Þorsteinn Sæmundsson) (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Nú man ég svo sem ekki heldur hvort hv. þingmaður tók þátt í þessari umræðu í vor en hann er jafn velkominn í hana núna. Það kom ágætlega fram í máli hv. þm. Óla Björns Kárasonar áðan að við erum búnir að segja A. Við erum búin að segja að ellilífeyristökualdurinn sé sveigjanlegur, þ.e. maður getur byrjað að taka lífeyri 65 ára, maður getur tafið það allt til áttræðs. En það mál sem við flytjum núna — ég get svarað því strax: Jú, þetta er möguleiki en ekki kvöð. Samkvæmt frumvarpinu, eins og ég sagði í upphafi máls míns, snýst þetta um að mega en ekki að eiga. Þeir sem það vilja og kjósa geta hætt 65 ára og tekið lífeyri þá eins og fram hefur komið. Þetta er einungis til þess gert að veita þeim sem kjósa og hafa hug til þess leyfi til að halda starfi sínu áfram hjá hinu opinbera til 73 ára aldurs.

Ég var búinn að hugsa þetta mál og ræða það mjög lengi í mínum flokki áður en við fórum af stað með það. Ég held að það hafi einmitt verið þetta atriði sem ég minntist á í ræðunni minni sem ýtti mér út í að segja: Við verðum að gera þetta. Það var einmitt það sem ég sagði við hæstv. forseta hér rétt áðan, að háskólakennarar sem eru orðnir sjötugir missa skrifstofuna sína og eru gerðir að verktökum. Lögspekingar og náttúruvísindamenn, svo að ég nefni bara tvö dæmi, sagnfræðingar með yfirburðaþekkingu, yfirburðareynslu, fullfrískir, eru sendir á eftirlaun sjötugir. Og ef þeir hafa hug til þess að vinna áfram eru þeir gerðir að verktökum. Það þykir mér smánarlegt. Við eigum ekki að koma þannig fram við okkar dyggu þjóna.