149. löggjafarþing — 29. fundur,  8. nóv. 2018.

réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

37. mál
[16:48]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Jú, ég held ég hafi sagt það í byrjun ræðu minnar að ég gæti alveg stutt þetta frumvarp. Ég sagði bara að ég teldi að að fleiru þyrfti að huga. Ég er mjög fylgjandi því að víkka þetta út og menn fái að vinna lengur. Það er alveg rétt að menn lifa lengur, heilsan er betri, a.m.k. líkamleg heilsa. Það er mjög sorglegt að sjá fólk sent heim. Vinnan var eiginlega líf þess. Svo allt í einu er það bara komið heim og hefur ekkert að gera. Þá hallar mjög hratt undan fæti, sérstaklega andlega. Af hverju eigum við að negla þetta með þessum hætti? Ég veit ekki betur en menn séu hæstaréttardómarar í Bandaríkjunum fram í rauðan dauðann, meðan ekki er búið að úrskurða þá heilabilaða. Það dettur engum í hug að svipta þá vinnunni. Ég get alveg stutt þetta. Ég styð markmiðið, þ.e. að meira svigrúm sé til að vinna lengur, vegna þess að aðstæður hafa breyst. Það er bara staðreynd.

Hvernig förum við í það? Eins og segi: Ég hefði heldur viljað fara í heildarendurskoðun en að taka eitt atriði svona út. En það er aldrei að vita nema ég styðji þetta engu að síður.