149. löggjafarþing — 29. fundur,  8. nóv. 2018.

hlutafélög og einkahlutafélög.

38. mál
[17:47]
Horfa

Flm. (Þorsteinn Sæmundsson) (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu. Hann sagði í ræðu sinni: Það eru til aðrar og miklu betri leiðir til að koma í veg fyrir þetta heldur en þær sem eru farnar í þessu frumvarpi en hann sagði okkur ekki frá því hverjar þessar betri aðferðir væru. Mig þyrstir mjög að heyra af því í örfáum orðum hvað væri helst í því betra heldur en hér. Nú kannast ég við að svipaðar skorður eru settar við stofnun fyrirtækja á Norðurlöndum. Þar hefur mönnum verið óheimilt að stofna til fyrirtækja með svipuðum tímaramma og hér er sett inn. Það hefur gefist vel þar og mig langar til að spyrja þingmanninn að því hvort hann kannist við þær gjörðir nágranna okkar og hvort hann telji að þeirra árangur verði ekki samur hér með því að setja svipaðar skorður.

Fyrst af öllu og mest af öllu langar mig til að heyra frá hv. þingmanni hvaða aðferðir, hvaða leiðir eru vænlegri til árangurs í þessu atriði, þ.e. að koma í veg fyrir kennitöluflakk. Hvernig á að koma í veg fyrir það að 73% fyrirtækja verði fyrir skaða af kennitöluflakki? Hefur hv. þingmaður þá trú að tölur eins og þær séu úr lausu lofti gripnar? Hvaða prósenta þætti honum nógu alvarleg til að bregðast við með þeim hætti sem gert er í frumvarpinu?