149. löggjafarþing — 29. fundur,  8. nóv. 2018.

hlutafélög og einkahlutafélög.

38. mál
[18:06]
Horfa

Brynjar Níelsson (S):

Hæstv. forseti. Það er alltaf sami vandinn hjá mér þegar ég er í ræðu á eftir hv. þingmanni Óla Birni Kárasyni, þá er hann búinn að flytja ræðuna fyrir mig. Ég er að vísu eins ekki dramatískur og hann. Ég vil kannski byrja á því að segja að ég hef það á tilfinningunni að menn almennt átti sig ekki á því hvað hlutafélagsformið, þ.e. félagsform með takmarkaðri ábyrgð, er mikilvægt. Það er raunverulega forsenda þess að til varð alvöruatvinnulíf á Vesturlöndum. Allt forskotið sem Vesturlönd fengu var vegna þessa forms. Menn gleyma því alveg.

Ég er ekki á móti því að tekið sé á því sem ég kalla kennitöluflakk. Hvað er kennitöluflakk? Ég veit alveg hvað kennitöluflakk er í mínum skilningi auðvitað. Ég vann við þessi störf megnið af minni starfsævi, að skipta þrotabúum bæði sem opinber starfsmaður og síðast sem lögmaður. Ég lít svo á að þeir sem eru í kennitöluflakki séu þeir sem stunda óheiðarleg viðskipti, t.d. panta vörur sem ekki er til peningur fyrir að borga, taka allt út úr rekstrinum og skilja hann eftir til að fara í annað. Það er brot. Það er til að mynda brot að gera einhverjar ráðstafanir sem þú veist að þú getur ekki staðið við. Ég veit ekki hve marga ég kærði til lögreglu fyrir slíkt gegnum tíðina.

Vandamálið er að þetta frumvarp tekur ekkert á því. Það takmarkar bara stjórnarskrárvarinn rétt manna til að sinna viðskiptum í þessu formi. Það er auðvitað alveg hárrétt sem hv. þm. Óli Björn Kárason sagði hér síðast. Við erum með menn og konur í stjórnum fjölda fyrirtækja sem eru í miklum áhætturekstri, sérstaklega nýsköpunarfyrirtæki. Við sáum fyrir hrun að menn voru í stjórnum margra fyrirtækja sem fóru öll á hausinn við sérstakar aðstæður. Hefði þetta verið í lögum á þeim tíma hefði ekkert af þessu fólki getað tekið þátt í atvinnulífinu, eðlilegu atvinnulífi, með alla sína reynslu og þekkingu. Þess vegna er þetta frumvarp raunverulega meira til skaða en að gera það gagn sem menn eru að reyna að hafa til að sporna við kennitöluflakki.

Ég held að til að reyna að sporna betur við kennitöluflakki — auðvitað svindla menn alltaf, það skiptir engu máli hvaða lög við setjum ef menn ætla að svindla — og takmarka kennitöluflakk væri betra að það væri tekið föstum tökum þegar í ljós kemur að viðskipti hafa verið óheiðarleg og ekki lögum samkvæmt. Ef menn eru ákærðir og dæmdir fyrir slíkt þá skal ég segja: Ókei, þú getur ekki staðið í atvinnurekstri í einhvern tíma. Ekki vandamál af minni hálfu ef menn hafa sannarlega brotið af sér.

Ég tek undir með hv. þm. Óla Birni Kárasyni að við sem erum í sérstökum leiðangri núna að reyna að efla nýsköpun, við vitum að yfir 90% af slíkum fyrirtækjum fer á hausinn. Það er eðli málsins samkvæmt, hefur alltaf verið og verður alltaf. Ég er ekkert viss um að það sé endilega mikið tjón af því, af því að menn töluðu hér um tjón.

Mín tilfinning er sú að svona frumvarp komi raunverulega fram vegna þess að það er mjög almenn skoðun í samfélaginu að gjaldþrot eitt og sér sé saknæmt. Þá sitji einhverjir aðrir í súpunni og sá sem er gjaldþrota þurfi að bera einhverja ábyrgð á því. Þetta er vandamálið í kringum þetta. Við heyrum það bara í almennri umræðu, það þarf ekki annað en að fara á samfélagsmiðla. Ef einhver hefur verið í forsvari eða rekið fyrirtæki sem fer á hausinn þá er honum ekki vandaðar kveðjurnar, en fær auðvitað verðlaun hjá Frjálsri verslun eða einhvers staðar þegar gengur vel. Annaðhvort verðlaunuðum við fólk eða spörkum í það. Það er mjög íslenskt. Ég held við ættum að láta af því.

Ég get alveg sagt mína skoðun á tapinu eða tjóninu af hinu raunverulega kennitöluflakki, ég tel að það sé ofmetið líka. Ofmatið er náttúrlega fyrst og fremst það að hér er verið að áætla einhverjar stórar tölur sem enginn fótur er fyrir hjá opinberum aðilum. Þegar minnst er á kannanir þar sem verið er að spyrja hvort menn hafi tapað á kennitöluflakki eða tapað á gjaldþrotum annarra …(Gripið fram í.) Ég er ekki viss um að menn geri mikinn greinarmun því í svona svari. Það skiptir ekki máli. Þetta er venjulega í mjög afmörkuðum rekstri, hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson, þeir menn eru þekktir. Menn geta líka svolítið fylgst með því sjálfir. Ég ætla ekki að eiga í viðskiptum við þessa menn sem hafa stofnað hvert fyrirtækið á fætur öðru í kringum venjulega pípulagnir eða venjulega einfalda starfsemi. Þetta er venjulega þannig. Menn geta auðvitað takmarkað tjónið með því að vera sjálfir svolítið vakandi.

Ég er hins vegar alveg sammála því að það er mjög óþolandi að þegar menn eru að svindla í atvinnurekstri. Ég vil taka á því og legg mjög mikla áherslu á að við höfum alveg þokkalegt eftirlit. Við höfum skiptastjóra sem eiga auðvitað að láta vita ef eitthvað er óeðlilegt í rekstrinum og þeir gera það held ég alla jafna. Kröfuhafar geta fylgst með því og kært líka. Þannig að það eru ýmis úrræði til að sporna við kennitöluflakki.

Ég tek undir það með hv. þm. Óla Birni Kárasyni að þetta mun held ég vera til skaða og gera illt verra. Ég bið menn bara um að hugsa þetta vel. Þetta fer auðvitað inn í nefnd, hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson, og við skulum fara vel yfir þetta þar. Reyna að greina hvar vandinn er og hvort það séu ekki einhver einfaldari úrræði, skilvirkari úrræði sem taka beint á vandanum frekar en að við séum með svona almenna aðgerð þar sem mönnum er í raun og veru refsað fyrir eitthvað sem er ekkert saknæmt. Ég tek undir með hv. þm. Óla Birni Kárasyni. Auðvitað er þetta refsing, alveg eins og farbann er refsing. Þú ert ekki frjáls til að gera það sem þér er þó veittur réttur til í stjórnarskránni.

Ég bið menn að huga betur að þessu, fara betur yfir þetta. Mér sýnist þetta vera nokkurn veginn óbreytt frumvarp frá því sem Karl Garðarsson lagði fram á sínum tíma. Ég held ég hafi lent í sjónvarpsþætti með honum, í Kastljósi, út af því. Auðvitað fékk ég gusuna yfir mig af því að ég var ekki sáttur við frumvarpið, ég væri þá að verja glæpamenn eins og ég virðist alltaf vera að gera. En ég er auðvitað að gæta almannahagsmuna í þessu. Það eru fyrst og fremst almannahagsmunir sem ég hef í huga.