149. löggjafarþing — 29. fundur,  8. nóv. 2018.

sjóðir og stofnanir sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og málefni aldraðra.

40. mál
[18:57]
Horfa

Flm. (Þorsteinn Sæmundsson) (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið og ég heyri að frumvarpið á góðan liðsmann í hv. þingmanni í efnahags- og viðskiptanefnd. Ég tek heils hugar undir að okkur ber að standa vörð um réttindi þessa ágæta fólks. Það vill svo til og ég tek undir með hv. þingmanni að það er ágætisreynsla af því að öldrunarmál á Íslandi hafa að mörgu leyti verið í eigu annaðhvort einkaaðila eða sjálfseignarstofnana mjög lengi. Ég held að fyrsta Hrafnistuheimilið hafi verið byggt í kringum 1955–1957 ef ég man rétt. Þetta er því löng saga.

Það breytir ekki því, og af því að hv. þingmaður minntist á að hafa hitt fólk í Boðaþingi, þá kannast ég líka við það mál. Það er mál sem því miður hefur ekki gefist tækifæri fyrir mig enn þá að setja mig algjörlega inn í, vegna þess að þar erum við með dæmi um ágreining. Ágreiningurinn er settur fyrir dóm og dómurinn segir: Íbúarnir eiga réttinn. Þá breytir leigusalinn forsendunum eftir á, eftir þann dóm, og setur heimilismönnum eða þeim sem búa þar í þeim öryggisíbúðum þá kosti að gangast undir það að greiða sameiginlegan kostnað sem héraðsdómur var búinn að segja að ætti ekki að greiða, ellegar yfirgefa húsið. Ég veit til þess að sex eða tíu aðilar hafa gert það. Fólk sem er á sjötugsaldri, áttræðis- og níræðisaldri hefur yfirgefið heimili sitt sem hélt að það væri tryggt með til frambúðar, vegna þess að komið var svona fram við það. Því máli er ekki lokið af hálfu þess sem hér stendur þó að hlé hafi orðið á að því verði sinnt.