150. löggjafarþing — 29. fundur,  11. nóv. 2019.

kjör lifeyrisþega.

[15:28]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Aftur vil ég ítreka það sem ég kom ekki að í mínu fyrra svari að það hefur verið mjög þung krafa frá hagsmunasamtökum örorkulífeyrisþega að draga úr skerðingum. Það var gert á miðju þessu ári og dregið úr krónu á móti krónu skerðingu. En eins og ég sagði við hv. þingmann áðan þá er það ekki svo að það þýði að ekki megi gera betur. Ég held að ég og hv. þingmaður séum sammála um það. Auðvitað er kannski einfalt að tala um eitthvert meðaltal í hópi örorkulífeyrisþega en þeir eru líka fjölbreyttur hópur. Við erum með tekjulægstu einstaklingana í þeirra hópi sem ég tel að ætti að skoða sérstaklega, líkt og hæstv. félags- og barnamálaráðherra er að gera í tilfelli eldri borgara, aldraðra, og horfa sérstaklega til tekjulægsta hópsins í breytingum á kerfinu. Það held ég að sé rétt forgangsröðun og nú, eins og ég nefndi áðan, er von á frumvarpi frá hæstv. ráðherra og þar verður auðvitað að horfa sérstaklega til þess hvernig við getum lyft þeim hópi.