150. löggjafarþing — 29. fundur,  11. nóv. 2019.

skimun fyrir krabbameini.

[15:35]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Fyrst aðeins áfram varðandi þessi faglegu rök. Það er rétt sem hv. þingmaður bendir á, þetta gerðist í skrefum með þeim hætti sem hann nefnir. En það sem er talið mikilvægt líka og kemur fram í röksemdum bæði Landspítala og Sjúkrahússins á Akureyri er að vera nálægt þessu faglega baklandi sem lýtur að krabbameinslækningum. Við búum við þá stöðu í mönnun í heilbrigðisþjónustunni að það skiptir máli að sérþekking sé þétt, sérstaklega þegar um er að ræða mikla sérhæfingu.

Hv. þingmaður spyr sérstaklega um fjárhagslegan eða faglegan ávinning af þeirri breytingu sem lýtur að heimahjúkrun og heimaþjónustu við krabbameinssjúka. Ég hef ekki svör á reiðum höndum nákvæmlega við þeirri fyrirspurn hv. þingmanns en kynni að vera að ég myndi leysa það annaðhvort með því að hafa samband við hv. þingmann eða verða við því að svara skriflegri fyrirspurn þar um.