150. löggjafarþing — 29. fundur,  11. nóv. 2019.

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.

319. mál
[16:09]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get ekki stýrt því hvaða ályktanir hv. þingmaður dregur en við leggjum upp með það að hér eigi að geta orðið til öflug og kraftmikil stofnun. Forstöðumenn beggja þessara stofnana, bæði Íbúðalánasjóðs og Mannvirkjastofnunar, hafa lýst yfir miklum stuðningi við málið. Af því að hv. þingmaður var að vitna til forstjóra Mannvirkjastofnunar sérstaklega hefði verið hollt fyrir hv. þingmann að vera á mjög flottum fundi sem Samtök iðnaðarins boðuðu til í morgun þar sem forstjóri Mannvirkjastofnunar, Björn Karlsson, stóð sérstaklega upp og fagnaði því að mikill kraftur væri í þessum málum og hann hlakkaði til að sjá nýja og öfluga Húsnæðis- og mannvirkjastofnun verða til sem gæti komið með aukinn slagkraft inn í þessi mál og spennandi tímar væru fram undan. Ég veit eiginlega ekki til hvaða hluta hv. þingmaður er að vitna þarna, en hvet hv. velferðarnefnd til að fara vel yfir þetta mál og skoða það og (Forseti hringir.) kalla þá til sín alla þá aðila sem málinu tengjast.